Willis kaupir klósettpappír – Ný Red 2 plaköt

Bruce Willis hefur verið tíður gestur á hvíta tjaldinu það sem af er árinu og ekkert lát virðist ætla að verða á því – og allt eru þetta framhaldsmyndir. Í byrjun ársins var það A Good Day to Die Hard, síðan kom G.I. Joe: Retaliation og nú er væntanleg í júlí mynd nr. 2 um eftirlaunahetjurnar í gaman-spennumyndinni Red, Red 2. 

Ný stikla fyrir myndina, sem byggð er á teiknimyndasögu, er væntanleg á föstudaginn næsta, en þangað til má skemmta sér við að horfa á þessi tvö persónuplaköt af Bruce Willis og John Malkovich í hlutverkum sínum sem tveir af ellibelgjunum í myndinni, þeir Frank Moses og hinn ofsóknaróði Marvin Boggs:

Eins og sést er Bruce Willis vel vopnaður að kaupa klósettpappír á meðan John Malkovich er ekki síður vel vopnaður í kindahjörð.

 

Leikstjóri myndarinnar er Dean Parisot, sem er best þekktur fyrir myndirnar Galaxy Quest og Fun With Dick and Jane.

Ásamt þeim Willis og Malkovich þá snúa aftur til leiks þær Mary-Louise Parker og Helen Mirren. Af nýjum leikurum sem ekki voru í fyrri myndinni má nefna stórstjörnurnar Anthony Hopkins, Catherine Zeta-Jones, Byung-hun Lee ( sem lék með Willis í G.I. Joe), Neal McDonough og David Thewlis.

Í Red 2 safnar fyrrum leyniþjónustumaðurinn Frank Moses liði sínu aftur saman til að elta uppi týnt tæki sem tengist kjarnorkusprengju. Til að ná árangri þá þurfa þau að eiga við miskunnarlausa leigumorðingja og hryðjuverkamenn og valdasjúka embættismenn, sem allir vilja komast yfir vopnið ógurlega. Til að vinna verkefnið þarf hópurinn að fara til Parísar, Lundúna og Moskvu. Þau eru langtum verr búin til átaka en mótherjarnir, og eiga við ofurefli að etja, en með útsjónarsemi og gömlum töktum, ásamt því að hafa hvert annað, þá láta þau til skarar skríða, enda er heimurinn í hættu og þau þurfa að halda lífi.

Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 19. júlí nk. en 2. ágúst á Íslandi.