Kvikmyndaleikstjórinn Wes Craven lést 30. ágúst af völdum illkynja heilaæxlis. Hans verður sárt saknað af hryllingsmyndaunnendum um heim allan. Hann var 76 ára gamall.
Það eru ekki margir leikstjórar sem ná að marka stefnu í ákveðnum geira kvikmynda en Craven tókst það að minnsta kosti þrisvar sinnum. Hann hneykslaði heimsbyggðina með „The Last House on The Left“ (1972) en ofbeldið í henni þótti óþægilega raunverulegt og persónurnar svo viðurstyggilegar að það hreinlega gekk fram af fólki. Myndin varaði við á plakatinu „To avoid fainting, keep repeating, It‘s only a movie“ og allar götur síðan hefur hún viðhaldið mætti sínum í að hneyksla áhorfendur; upp að vissu marki.
„Last House“ kom Craven á kortið en hann átti erfitt með að negla niður verkefni og það var ekki fyrr en fimm árum síðar að hann minnti rækilega á sig með „The Hills Have Eyes“ (1977). Myndin var með eindæmum vægðarlaus í sögu sinni um fjölskyldu í bílferð umhverfis landið sem verður fyrir barðinu á mannætum í óbyggðum. Ljóst var að Craven fór létt með að skapa spennu og vekja óhugnað hjá áhorfendum og teikn voru á lofti að nýr hryllingsmeistari væri að rísa upp.
Næstu árin voru þó í skrýtnari kantinum og myndirnar náðu ekki að uppfylla væntingar. „Stranger in Our House“ (1978), einnig þekkt sem „Summer of Fear“ var sjónvarpsmynd með Lindu Blair sem vakti litla lukku og töldu gagnrýnendur að Craven væri ófær um að skapa drungalega stemningu án þess að geta gripið í gegndarlaust ofbeldi eins og kvikmyndir gáfu honum frelsi til að gera. Þrjú ár liðu þar til „Deadly Blessing“ (1981) kom til og enn þótti Craven missa marks í þessari skrítnu samsuðu yfirnáttúrulegs hryllings og morðgátu sem gerist í samfélagi Amish-fólks. Þessi er helst þekkt fyrir að skarta ungri Sharon Stone í meðalstóru hlutverki. Næst á dagskrá var „Swamp Thing“ (1982) og „Invitation to Hell“ (1984) og þó svo fyrrnefnda myndin eigi sér dyggan hóp költ-aðdáenda þá gerðu þessar myndir lítið fyrir feril Craven. „The Hills Have Eyes Part II“ (1984) er af mörgum talin sú versta sem leikstjórinn hefur gert.
1984 reyndist samt vera árið sem Craven kom sér endanlega fyrir sem hryllingsmeistari sem gat talist meðal þeirra bestu. „A Nightmare on Elm Street“ var frumsýnd 16. nóvember það ár og vakti mikla lukku meðal áhorfenda og gagnrýnenda. Myndin kom á þeim tíma þegar slægjur, ákveðinn undirflokkur hryllingsmynda, voru að líða undir lok og áhorfendur voru loks farnir að þreytast á hversu óaðgreinanlegar þær myndir voru en rúmlega 200 slíkar myndir höfðu komið út á tæpu sex ára tímabili. „Elm Street“ fylgdi eftir reglum slægjumynda en færði hryllinginn á nýtt plan og kynnti til sögunnar verulega óhuggulegan óvætt, Freddy Krueger, sem gat nálgast fórnarlömb sín í draumaástandi og myrt þau þar. Slægjur höfðu fram að þessum tíma haft þá sérstöðu að sýna fram á að manneskjur með siðferðislega réttan áttavita höfðu betur gegn ófreskjunum á meðan fólkið sem lét undan öllum hvötum sínum hlutu miður góð örlög. Rauður þráður í þessum myndum var að fullorðna fólkið, þ.e. foreldraeiningin, var fjarverandi og hjálpaði ekki börnunum sínum að glíma við hættuna.
Craven tók þessa hugsun skrefinu lengra í „Elm Street“ en þar voru foreldrarnir beinlínis valdir að hættunni hjá börnunum sínum; en þeir tóku barnaníðinginn Fred Krueger af lífi og hann finnur sér leið í draumaheim barna þeirra og myrðir þau. Syndir foreldranna leiða til aftöku afkvæmanna. Þegar slægjur eru skoðaðar í félagslegu samhengi sýna þær fram á ákveðinn veruleika sem unga kynslóðin upplifði og Craven fann leið til að koma þeim skilaboðum á framfæri; og hann gerði það með ansi svölum hryllingsmyndaóvætt sem enn lifir góðu lífi.
Ekki er hægt að segja að Craven hafi fylgt „Elm Street“ eftir með stæl en næstu myndir hans fölnuðu í samanburði. „Chiller“ (1985) var önnur sjónvarpsmynd sem er nánast gleymd í dag; „Deadly Friend“ (1986) er í það minnsta áhugaverð unglinga-hrollvekja sem er helst þekkt fyrir að hafa verið tekin úr höndum hans og endurklippt þar til ekkert varð eftir af upprunanlegri sýn Cravens; „The Serpent and the Rainbow“ (1988) er helst þekkt fyrir að vera enn ein myndin þar sem Bill Pullman deyr hrikalegum dauða; „Shocker“ (1989) þykir frekar slæm en nýleg Blu-ray útgáfa hefur aðeins minnt á hana; „The People Under The Stairs“ (1991) þykir ágæt og nýleg viðhafnarútgáfa á Blu-ray gerir henni góð skil.
„Elm Street“ ól af sér fimm framhaldsmyndir og Freddy Krueger var orðinn að hálfgerðum brandarakalli. Craven leikstýrði engum þeirra en hann snéri aftur með „New Nightmare“ (1994) þar sem hann snéri formúlunni á haus í nýstárlegri útfærslu á efniviðnum. Í myndinni finnur Krueger sér leið úr kvikmyndaheiminum inn í hinn raunverulega heim og fer að hrella aðalleikonuna úr fyrstu myndinni þar sem hún er táknræn fyrir að hafa verið sú fyrsta sem sigraði hann. Mögnuð pæling hjá hryllingsmeistaranum sem fann leið til að fjalla um áhrif hryllingsmynda á menninguna um leið og hann gerði Krueger að óhugnanlegum óvætt á nýjan leik.
Næst kom skellur undir nafninu „Vampire in Brooklyn“ (1995) sem best er að láta alveg í friði en „Scream“ (1996) gerði það heldur betur gott. Hryllingsmyndir voru á hraðri niðurleið í miðasölu í bíóhúsum og voru margar farnar að fara beint á vídeómarkaðinn þegar handritshöfundurinn Kevin Williamson, þá helst þekktur sem skapari „Dawson‘s Creek“, kom með frábæra hugmynd að nútíma slægju. „Scream“ gekk mikið út á að allar persónurnar þekktu gömlu hryllingsmyndirnar inn og út og vissu alveg hverjar reglurnar voru en komu sér samt í hættu. Ódæðismennirnir voru álíka fróðir um gömlu verkin og notuðust við hugmyndir frá þeim til að finna upp á góðum leiðum til að drepa fólk. Þarna var mynd sem í öllum sínum ófrumleika verður í senn að teljast frumleg og ný tegund slægjumynda hóf líf sitt og er enn við lýði tæplega 20 árum seinna.
Craven leikstýrði „Scream 2“ (1997) og „Scream 3“ (2000) en hann kom öllum að óvörum þegar hann gerði „Music of the Heart“ (1999) með Meryl Streep sem fjallaði um raunir tónlistarkennara í Harlem sem reynir að kenna krökkum í óvinveittu umhverfi. „Cursed“ og „Red Eye“ (báðar 2005) vöktu litla athygli sem og „My Soul To Take“ (2010) og síðasta leikstjórnarverkefni hans var „Scream 4“ (2011) .
Wes Craven var með Masters gráðu í ensku og kenndi um tíma áður en hann lagði kvikmyndagerð fyrir sig. Hann var aðeins fjögurra ára gamall þegar faðir hans lést og æska hans einkenndist af eilífum flutningum milli staða með fjölskyldu sinni. Fróðari menn um Craven en ég telja að hverfulleiki lífsins og ófyrirsjáanleiki hafi markað sýn hans á tilveruna sem hann kom svo eftirminnilega til skila í myrkum sögum á tjaldinu þegar best lét.