Herra Föstudagur þrettándi

Föstudagurinn þrettándi er, í kvikmyndalegum skilningi, eign Jason Voorhees. Alls hafa 12 myndir um kappann litið dagsins ljós og búið er að gefa út að sú þrettánda komi á næsta ári. Það er bara viðeigandi.

Ef „Friday the 13th“ er slegið inn í Google images er hokkígríma Jasons í fyrsta rammanum og svo eintómar vísanir í myndabálkinn. Miðað við tilviljanakennda uppruna hans og mjög svo misjafna túlkun á honum (enda 11 mismunandi leikstjórar á bak við þessar 12 myndir) er mesta furða hve lífseigur, og vinsæll, hann er í heimi hryllingsmyndaunnenda.

Jason 2

Í tilefni dagsins koma hér stuttar staðreyndir um Jason og myndirnar tólf.

„Friday the 13th“ (1980).

Eins og flestir vita þá er Jason ekki morðinginn í fyrstu myndinni heldur annar aðili. Sean S. Cunningham, leikstjóri, og Tom Savini, förðunarfræðingur, létu sér detta í hug að láta afskæmt barn stökkva upp úr sjónum til þess að bregða áhorfendum svona einu sinni í viðbót. Hvorugur hafði hugsað sér að neitt meira yrði úr þessari persónu.

Jason 3

„Friday the 13th. Part 2“ (1981).

Fimm ár líða og Jason virðist vera eitthvað skógarbarn sem lifir á dýrunum þar og notar poka með einu gati til að hylja andlitið sitt. Innblásturinn að útliti hans virðist koma frá „The Town That Dreaded Sundown“ (1977). Fórnarlömb Jasons eru níu talsins.

„Friday the 13th. Part 3“ (1982).

Gerist í beinu framhaldi af „Part 2“ og gerist því á laugardegi. Atburðir fyrri myndar virðast hafa teygt úr Jason því nú er hann alla vega 20 cm hærri, mun grennri og það hár sem prýddi toppstykkið hvarf líka. Hér fær hann líka hokkígrímuna sem hann tekur af einu fórnarlamba sinna. Jason drepur 12 manns.

21353_ori

„Friday the 13th. The Final Chapter“ (1984).

Gerist í beinu framhaldi af „Part 3“ og atburðir myndarinnar eiga sér því stað á sunnudegi og mánudegi. Jason hefur aftur skroppið saman en vöðvamassinn hefur aukist og hann er mun grimmari í aftökum sínum.  Þrátt fyrir frekari framhöld þá lýgur titillinn ekki; Jason hlýtur grimm endalok. Jason drepur 13 manns og náði því að slátra 34 manneskjum á fjórum dögum.

„Friday the 13th. A New Beginning“ (1985).

Varla hægt að hugsa sér betri undirtitil eftir „The Final Chapter“ en þessi er svona „allt í plati“ því Jason er undir mold alla myndina og trítilóður sjúkraliðsmaður fremur ódæðisverkin. Endirinn lofar því að annar aðili haldi uppi heiðri Jason en önnur leið var farin í næstu mynd.

jason 5

„Friday the 13th, Part 6. Jason Lives“ (1986).

Það var ekki hjá því komist að Jason yrði meðlimur hinna ódauðu þar sem hann snéri aftur í sjöttu myndinni. Að vera dauður hægir þó ekki á honum og hann er afkastameiri en nokkru sinni fyrr þar sem fórnarlömbin eru 16 talsins.

„Friday the 13th. Part 7. The New Blood“ (1988).

Það hlaut að koma að því að Jason hitti mannlegan jafnoka sinn og hér er hann í formi unglingsstelpu sem getur framkallað allan déskotann með hugarorkunni einni saman. Samt tekst Jason að murka lífið úr 16 manneskjum.

„Friday the 13th. Part 8. Jason Takes Manhattan“ (1989).

Frábær titill en að mestu helber lygi þar sem meginlunginn af myndinni gerist um borð í skemmtiferðaskipi á leið til New York; sem er að mestu leyti bara Vancouver í Kanada því það er ódýrara að skjóta myndir þar. Jason drepur 17 manns í þessari.

jason 6

„Jason Goes To Hell. The Final Friday“ (1993).

Greinilegt að áttunda myndin átti sér aldrei stað og hér byrja herlegheitin á að Jason splundrast í tætlur. Þá tekur sálin hans við og hoppar í hinn og þennan aðila í leit að systur sinni; sem aldrei hafði verið minnst á áður og ekki eftir. Svo endar hnífavettlingur Freddy Krueger á að kippa Jason með til heljar; þannig að titillinn lýgur að minnsta kosti ekki. Fórnarlömbin hér eru 18 talsins.

jason 7

„Jason X“ (2000).

Greinilegt að níunda myndin átti sér aldrei stað en þessi byrjar á að Jason frýs og er ekki afþíddur fyrr en um 450 árum seinna um borð í geimskipi á leið til Jarðar 2 þar sem frumeintakið er óíbúðarhæft. Jason vaknar pirraður og setur persónulegt met; 28 manns slátrað í heildina.

„Freddy vs. Jason“ (2003).

Greinilegt að tíunda myndin átti sér aldrei stað en hér keppast tveir óvættir um að drepa sem flesta; bæði á Álmstræti og í Camp Crystal Lake. Fórnarlömbin eru 24 talsins og þeir félagar skipta þeim með sér.

jason 8

„Friday the 13th“ (2009).

Þegar um allt þrýtur; byrja upp á nýtt. Þessi er hálfgerð endurgerð af fyrstu og þriðju myndinni en sló ekki nægilega mikið í gegn og serían virtist hafa sungið sitt síðasta.

Engu hefur verið ljóstrað upp um söguþráð væntanlegu myndarinnar en búast má fastlega við að hún verði annað upphaf á ógnartíð hins afskræmda  Jason Voorhees.

jason 9

Illa hefur verið farið með Jason og ævintýri hans í háskerpu en einu Blu-ray útgáfurnar eru þær sem prýddu bíóhús á sínum tíma; þ.e.a.s. eftir að kvikmyndaeftirlitið sneyddi burt mikið af ógeðinu. Vonandi með tilkomu nýrrar myndar á næsta ári verður ráðist í óklipptar útgáfur á Blu-ray svo að allir unnendur verði sáttir.