Drepinn 50.000 sinnum

Japanski leikarinn Seizo Fukumoto er enginn venjulegur leikari.  Hann hefur verið stunginn, skorinn og ristur með japönsku sverði í meira en 50 ár og sagan segir að hann hafi verið  drepinn 50 þúsund sinnum á skjánum og á hvíta tjaldinu.

Fukumoto er einn af bestu kirareyaku leikurum í Japan, en það eru áhættuleikarar sem eru sérhæfðir í að láta drepa sig af aðal samuræja hetjunni í sögulegum japönskum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.

fukumoto

„Sannur kirareyaku leikari er sá sem getur láti áhorfendur hnipra sig saman í sætinu, “sá sem getur látið þá spyrja, “er allt í lagi með hann?” segir Fukumoto í samtali við bandaríska blaðið The Wall Street Journal.

Fukumoto sem nú er 71 árs gamall, byrjaði að leika þegar hann var 15 ára gamall, og varð fljótt heillaður af því að leika þorpara í kvikmyndum. Á kvöldin heima hjá sér æfði hann sig í að deyja á sem skrautlegastan hátt í sverðabardaga. Eitt af frægustu “dauðaatriðum” hans er hið svokallaða ebi-zori, eða rækju beygjan, en þar, eftir að hann er stunginn, sveigir hann líkamann aftur á bak eins og rækja, fer svo í krampa, og iðar allur og fálmar út höndum áður en hann deyr.

“Það hvernig persóna mín deyr í myndum hefur mikil áhrif á það hvernig aðalleikarinn í myndunum nær til fólks,” sagði Fukumoto í ritgerð frá árinu 2012. Ebi-zori er hin fullkomna leið til að deyja, að hans mati, af því að myndavélin getur einbeitt sér að hugprýði hetjunnar á meðan kirareyaku leikarinn fær einnig að sjást á skjánum með því að snúa andliti sínu að myndavélinni í dauðateygjunum.

Nú eru tímamót framundan hjá Fukumoto þar sem hann fær nú loksins að leika aðalhlutverk í kvikmynd, en það er myndin Uzumasa Limelight, sem frumsýnd verður í júlí nk. “Ég hafnaði tilboðinu í fyrstu, sagði þeim að ég gæti ekki gert þetta. Það væri klikkuð hugmynd,” sagði Fukumoto. “Ég var stressaður þegar tökur hófust. Ég hafði aldrei verið með svo margar myndavélar á mér.”

En Fukumoto hefur ekki eingöngu leikið í japönskum myndum. Eitt stærsta hlutverk hans til þessa var í Tom Cruise myndinni The Last Samurai frá árinu 2003. Fukumoto segir að það að deyja með tilþrifum krefjist ekki mikilla daglegra æfinga, heldur þurfi einungis að kunna listina að vera kirareyaku leikari, sem þýðir í raun “hlutverk hins skorna”. Áður fyrr kynnti hann sér í þaula hvernig Charlie Chaplin lét sig detta í myndum sínum og notaði það sem innblástur fyrir sín hlutverk. Í gegnum árin hefur hann síðan uppgötvað margvíslegar aðferðir til að deyja, að ranghvolfa augunum, detta á hnén og deyja hljóðlega. Einnig vælir hann með tilþrifum þegar blóð gusast út úr maga hans.

Á blómatíma samuræja kvikmynda í Japan voru gjarnan 10 slíkar myndir teknar upp samtímis í einu og sama kvikmyndaverinu, og þá var Fukumoto drepinn mörgum sinnum á sama deginum og stundum oft í sömu myndinni. Í dag hefur þó mjög dregið úr framleiðslu þessara mynda.

Goðsagan segir að Fukumoto hafi verið drepinn 50 þúsund sinnum á skjánum og á hvíta tjaldinu, en hann segir að það séu líklega ýkjur. Fukumoto segir að öll hlutverkin sem hann hafi leikið skipti hann jafn miklu máli. “Ég gef mig alltaf 100% í hvern dauða, í þeirri von að einhver kunni að meta það, sem hefur núna gerst, fyrst ég er að fá aðalhlutverk í fyrsta skiptið.”

Stikk: