Donald Sutherland látinn

Kanadíski stórleikarinn Donald Sutherland, frægur fyrir hlutverk sín í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á borð við The Dirty Dozen, Don’t Look Now, Space Cowboys, Beerfest, The Italian Job og M*A*S*H, er látinn eftir langa baráttu við veikindi. Hann var 88 ára gamall.

Sutherland hlaut heiðursverðlaun Óskarsins árið 2017. Ferill Donald Sutherlands spannar hátt í sex áratugi og hreppti hann meðal annars Emmy-verðlaun og Golden Globe-verðlaun fyrir leik sinn. Hann er líklega þekktastur yngri kynslóðinni fyrir hlutverk sitt sem Snow forseti í kvikmyndunum um Hungurleikana. Hann var faðir leikarans og Íslandsvinarins Kiefer Sutherland.

Kiefer staðfesti andlát föður síns í færslu á samfélagsmiðlinum X. Þar sagðist hann vera þeirrar skoðunar að faðir sinn hefði verið einn af mikilvægustu leikurum kvikmyndasögunnar. Hann hafi elskað starf sitt og lifað lífinu til fulls.