Alan Parker látinn

Leikstjórinn Alan Parker er látinn, 76 ára að aldri. Þetta var staðfest af fjölskyldu hans í tilkynningu og segir þar að hann hafi glímt við langvarandi veikindi og lést á heimili sínu í London.

Parker átti að baki flottan feril og er hvað þekktastur fyrir fjölda tónlistarmynda, meðal annars söngleikina Bugsy Malone, Evita, The Wall með hljómsveitinni Pink Floyd og músíkmyndirnar Fame og The Commitments. Þá má heldur ekki gleyma hinni sígildu Midnight Express, kvikmyndinni Angel Heart, og ber að geta að kvikmyndir Parkers hlutu alls tíu Óskarsverðlaun og nítján BAFTA-verðlaun.

Auk þess að leikstýra fjölda kvikmynda var Parker stjórnarformaður Kvikmyndastofnunar Bretlands og breska kvikmyndaráðsins á sínum tíma. Elísabet Bretadrottning sló hann til riddara árið 2002.