Vill ekki glymskratta söngleik

Tori_Amos_Adelaide_2007Söngkonan Tori Amos, sem sló í gegn með plötunni Little Earthquakes árið 1991 og kom til Íslands árið eftir og hélt tónleika, vill gera kvikmynd upp úr söngleik sínum The Light Princess.

Söngleikurinn var frumsýndur í National Theatre í Lundúnum árið 2013, og rætt hefur einnig verið um að fara með hann á svið á Broadway í New York.

„Við erum að skoða möguleikann á að gera The Light Princess að bíómynd,“ sagði hún í vefspjalli við TheGuardian.com

Tori sagði einnig að hún hefði engan áhuga á að nota þekkt lög sín sem grunn að „glymskratta söngleik“ ( Jukebox Musical ), eins og ABBA gerði með Mamma Mia og Queen gerði í We Will Rock You.

„Eins og staðan er núna þá hef ég meiri áhuga á nýrri tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir,“ bætti hún við. „Hugmyndin um glymskratta söngleik er eitthvað sem ég myndi hugsanlega forðast. Sérstaklega þar sem ég laðast að nýjum hlutum, hvort sem það er að gera tónlist við sögu sem er til nú þegar, eins og í The Light Princess, eða gera eitthvað alveg nýtt.“