Í stuttu máli er „Toy Story 4“ mjög gott framhald í einstaklega vel heppnuðum myndabálki.
Dagný er stressuð yfir því að byrja í skóla og leikfangakúrekinn Viddi ákveður að lauma sér með á fyrsta skóladegi hennar. Hann kemur Dagnýju af stað með að útbúa eitthvað sjálf úr dóti úr ruslakörfunni og til verður ferlíkið Forki. Dagný tekur ástfóstri við þetta nýja leikfang sem fljótlega vaknar til lífs og verður nýjasta viðbótin í hópinn í herberginu. Forki fer svo á flakk og Viddi heldur út til að hjálpa honum aftur heim og verða þeir félagar viðskila við öll hin leikföngin. Ferðalagið reynist viðburðarríkt; Viddi hittir gamlan vin og endurnýjar kynnin og kemst að því að hann gæti átt allt öðruvísi framtíð en hann taldi mögulega.
„Toy Story“ myndabálkurinn er óvenju vel heppnaður. Fyrsta myndin þótti algjört meistarastykki á ýmsum vígstöðvum og framhöldin tvö þykja ekki síðri. Ekki aðeins eru myndirnar tæknileg undur heldur búa þær yfir einstaklega góðri persónusköpun og innihaldsríkum sögum sem eru tímalausar og uppfullar af góðum boðskap. Það hjálpar vafalaust til að þessar fjórar myndir koma á 24 ára tímabili sem segir manni það að mikill undirbúningur fer í þær og þeim er ekki dælt í hús um leið til að hamra á heitu járni.
Meginboðskapinn hér má súmmera upp nokkurn veginn svona: Það er í lagi að hugsa um sjálfan sig líka. Viddi hefur alla tíð haft vellíðan allra í kringum sig að leiðarljósi og hefur tekið það á sig að vera eins konar forsprakki fyrir leikfangahópinn. Hann er líka, og hefur ávallt verið, mjög húsbóndahollur og lagt mikið á sig til að veita bæði Adda (sínum gamla eiganda) og nú Dagnýju mikla gleði. Í byrjun „Toy Story 4“ tekur hann afdrifaríka ákvörðun sem einkennist af fórnfýsni hans en væntanlegt ferðalag hjálpar honum svo að endurmeta tilveru sína. Allt þetta er mjög hjartnæmt og einstaklega vel raungert með ótrúlegum sjónbrellum, hnitmiðuðu handriti sem er í senn temmilega væmið í bland við að vera mjög fyndið og þessum frábæru persónum. Viddi er hér í aðalhlutverki sem fyrr en Bósi og hinir eru honum til halds og trausts ásamt nokkrum nýjum og góðum viðbótum. Sér í lagi er tilbúna leikfangið Forki sérlega fyndinn í sinni heiftarlegu tilvistarkreppu og lærdómurinn sem hann dregur er ekki síður góður. Hann fær einnig bestu línuna í myndinni sem kemur í blálokin.
Það er pínu skondið að tilbúinn heimur leikfanga skuli vera uppspretta bestu afþreyingarinnar úr heimi teiknimynda þegar kemur að góðum boðskap. Viddi hefur á þessum mörgu árum kynnst gildi þess að eiga góða að og reynast öðrum vel, gildi sannrar vináttu og fórnfýsni, gildi þess að láta heift ekki ráða för og sætta sig við að tímabil líða undir lok og ný vegferð tekur við. Áhorfendur hafa svo fengið að vera farþegar á leiðinni og getað hlegið með, orðið spenntir yfir viðburðarríkum ævintýrunum og jafnvel þurft að nudda smávegis bleytu úr augunum.
Það voru miklar væntingar bundnar við „Toy Story 4“ og hún uppfyllir þær allar og ef hún reynist vera sú síðasta í myndabálkinum endar hann á háu plani.
Ég vil taka fram að umrædd sýning var með íslenskri talsetningu og var hún alveg fyrsta flokks. Felix Bergsson og aðrir standa sig með stökustu prýði og gæða persónurnar miklu lífi.
Toy Story 4
Leikstjóri: Josh Cooley
Handrit: Andrew Stanton og Stephany Folsom