Áfangasigur frjálsrar fjölmiðlunar

-Taka skal fram að endanum er að hluta til ljóstrað upp í umfjöllun-

„Pressan á að þjóna þeim sem er stjórnað en ekki þeim sem stjórna.“

Góður frasi sem heyrist í nýjustu Steven Spielberg myndinni „The Post“ en hún greinir frá mikilvægum kafla í frelsisbaráttu fjölmiðla þegar þeir fjalla um leynd og ósannsögli hjá eigin ríkisstjórn.

Svo virðist að forsetar og flest allir aðrir í ríkisstjórninni hafi logið upp í opið geðið á almenningi og fjölmiðlum um stríðið í Víetnam svo árum skiptir. Ráðamenn vissu fyrir löngu að stríðið væri töpuð barátta en skömmin við að játa það fyrir alheiminum var metin svo skaðræðisleg að ákveðið var að halda því til streitu og senda fleiri hermenn í baráttuna.

Hernaðarlegur greinandi á vegum bandaríkjahers, Daniel Ellsberg (Matthew Rhys), lekur til fjölmiðilsins The New York Times gögnum sem hlutu nafnið „The Pentagon Papers“ og þar kom fram svart á hvítu hve ráðalaus stjórnvöld voru og ósannsögul þegar kom að aðild Bandaríkjanna í Víetnam. Magnið af gögnum var svo gríðarlegt að fjölmiðillinn varð að prenta inntakið úr þeim í áföngum og fljótlega grípur forsetinn Richard Nixon til þess ráðs að setja lögbann á frekari fréttaflutning í skjóli þjóðaröryggis.

Í þessu millibilsstandi fær starfsmaður The Washington Post aðgang að Ellsberg og fær öll gögnin á silfurfati. Eigandi blaðsins, Kay Graham (Meryl Streep), þarf því að að taka erfiða ákvörðun þegar kemur að því hvort prenta eigi meira af gögnunum en fjölmiðillinn gæti þurft að sæta þungum refsingum og viðkomandi starfsmenn gætu mögulega átt yfir höfði sér fangelsisvist.

Steven Spielberg var svo sannarlega rétti aðilinn til að tækla þessa sannsögulegu baráttu frjálsra fjölmiðla við ríkisvaldið. Flestir vita nákvæmlega hver niðurstaðan varð en Spielberg knýr söguna áfram á áhrifaríkan hátt og setur hana upp sem hálfgerðan trylli og áhorfandinn er á sætisbrúninni megnið af tímanum. Þetta er bara á færi fyrsta flokks frásagnarmeistara og Spielberg er einn af þeim.

Einvalaliðið sem mannar leikarahópinn stendur sig með prýði og hæst ber að nefna Tom Hanks í hlutverki Ben Bradlee, aðalritstjóra The Washington Post, og Bob Odenkirk í hlutverki blaðamannsins Ben Bagdikian sem hafði upp á Ellsberg. Auðvitað er Meryl Streep líka góð í hlutverki Kay Graham en sú kona fékk fjölmiðilinn óvænt upp í hendurnar þegar eiginmaður hennar, og eigandi The Washington Post, fyrirfór sér. Það virðist samt að Streep þurfi bara að leika eitthvað sannfærandi og þá fær hún Óskarstilnefningu.

Sem drama virkar „The Post“ einnig vel. Kay var kona sem fann sig óvænt í algerum karlaklúbb og þurfti að fara vel út fyrir þægindaramma sinn og standa vörð um stofnun sem var í miklum fjárhagskröggum en var fjölskyldu hennar mjög mikilvæg. Mikil byrði til að bera og þegar til kastanna kom sýndi hún meira hugrekki en allir karlmennirnir sem áttu að vera henni til halds og trausts.

Blaðamennska  og það hlutverk sem hún þjónar er í raun afskaplega falleg hugsjón þegar hún er rædd í almennum skilningi og frelsið sem frjálsum fjölmiðlum er veitt er afar mikilvægt tól til að veita valdamönnum aðhald og gera þá ábyrga fyrir gjörðum sínum. Birtingarmynd þessa frelsis á sér einnig sínar dökku hliðar en um þær er ekki fjallað hér heldur um nauðsynlegan sigur sem fletti ofan af ráðaleysi ríkisstjórnar og óábyrgri hegðun hennar. En eins og góðri dæmisögu sæmir þá snýst allt á endanum um persónulegt hugrekki, mikilvægi þess að standa vörð um það sem skiptir máli og að hafa „hreðjarnar“ til að sýna klærnar þegar þeir sem valdið hafa ætla sér að misnota það í skjóli stöðu sinnar.

Að lokum má velta því upp hvort einhver verndarengill hafi veifað hendi sinni yfir The Washington Post því skömmu eftir þennan áfangasigur féll Watergate hneykslið í kjöltu þess. Orðstír blaðsins teygði sig til himna og blaðið lifir ávallt á þessari fornu frægð.