Mannvonska í framkvæmd

Í stuttu máli er „Útey“ mjög vel heppnuð tilraunakennd mynd um mannskæðustu árás á norskri grundu frá stríðsárum.

Voðaverkin í Útey eru á par við ellefta september fyrir marga og flestir muna nákvæmlega hvar þeir voru og hvað þeir voru að gera þegar tíðindin bárust. Flest getum við ekki ímyndað okkur hve hrikaleg lífsreynsla þetta var fyrir eftirlifendur árásinnar og skiljum ekki mannvonskuna sem fær einstakling til að ráðast að varnarlausum ungmennum.

Sögusviðið er stórfellda skotárásin á sumardvalastað ungliðahreyfingar norska verkamannaflokksins þann 22. júlí árið 2011. Það hlaut að koma að því að atburðirnir yrðu festir á filmu með einhverjum hætti og „Útey“ eftir leikstjórann Erik Poppe er frumleg nálgun á efniviðnum. Myndin er ein samfelld taka og fylgir eftir Kaju (Andrea Berntzen) sem er á eyjunni ásamt yngri systur sinni. Eins og aðrir þá veit hún ekki nákvæmlega hvað er að gerast þegar fyrstu skotin heyrast í fjarska en ringulreiðin og óttinn sem myndast í kjölfarið er fylgt eftir í rauntíma á meðan allir reyna að halda sér fjarri skotunum. Kaja reynir að hafa upp á systur sinni á meðan skotin dynja, ýmist nálægt eða í fjarlægð, og áhorfandinn fylgist með öngþveitinu allt í kring á meðan óttaslegin ungmennin hlaupa um og reyna að koma sér í öruggt skjól.

Árásin varði í 72 mínútur og hún er jafnlöng hér. Gerandinn er aldrei nefndur á nafn, fórnarlömbin vita ekki hvað er í gangi og endapunkturinn er þegar fyrstu aðilar mæta á vettvang til að hjálpa til við brottflutning. Myndin er tilraun til að endurskapa óttann og óvissuna sem umlék fórnarlömbin og fanga upplifunina af hryðjuverki sem er að eiga sér stað. Leikstjóranum tekst vel til og kemur til skila upplifun sem flest okkar munu aldrei komast í tæri við, blessunarlega. Því er náð með því að taka atburðarrásina upp í einni samfelldri töku og ber að hrósa öllum sem að myndinni stóðu fyrir frábæra tæknilega vinnu og leik. Andrea Berntzen er hreint svakalega góð en myndavélin heldur sig á henni allan tímann og hún kemur öllum tilfinningasveiflunum gríðarlega vel til skila. Allir aðrir leikarar standa sig vel og allt tækniliðið hefur unnið sannkallað þrekvirki.

Besta vopnið gegn mannvonsku er kærleikur. Hann skein í gegn og samstaðan á heimsvísu var hreint mögnuð. „Útey“ er metnaðarfull mynd um þessa mannvonsku í framkvæmd og tilraunakennt verk um óttann og sjálfsbjargarviðleitnina sem grípur fórnarlömbin sem verða fyrir henni.