Var fyrst smá hrokafull

Dans- og söngvamyndin Abbababb verður frumsýnd í næstu viku. Flestir ættu að þekkja verkið sem upprunalega er hljómplata eftir Dr. Gunna. Hún sló í gegn fyrir 25 árum og var síðar sett upp á leiksviði. Nú er röðin komin að hvíta tjaldinu en lögin hafa fengið nýjar útsetningar og viðbætur.

Raddböndin þanin.

Nanna Kristín Magnúsdóttir leikstjóri myndarinnar segir í samtali við Fréttablaðið í dag að upphaflega hafi framleiðendurnir Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson komið að máli við sig árið 2018 og spurt hvort hún hefði áhuga á að leikstýra bíómynd. „Ég viðurkenni að ég var smá hrokafull og hugsaði með mér að ég ætlaði sko ekki að hafa mína fyrstu mynd barnamynd,“ segir Nanna.

Nanna Kristín Magnúsdóttir.

„Þá var ég búin að skrifa handrit upp úr bók Steinars Braga, Konur. Það er mikil ádeila á feðraveldið og hlutgeringu á konum og ég ætlaði að láta mína rödd skína þar. En svo bara breytast hlutirnir og ég hugsa að ég geri aldrei þá mynd. Ég hugsaði með mér: „Hversu oft fæ ég svona tilboð?“ og ákvað að hitta þá og lesa handritið.“

Tollir í tískunni. Jón Arnór Pétursson í fullum skrúða.

Nanna varð það hrifin af handritinu að hún ákvað að taka verkefnið að sér með því skilyrði að hún fengi að setja sína rödd í söguna.

„Ég breytti einu og öðru, til að mynda því að aðalhlutverkið er nú stelpa og bætti við karakterum, aðallega kvenkyns. Ég vildi gera það sem ég hefði sjálf viljað sjá þegar ég var barn og unglingur og bæta við því sem fullorðna ég myndi vilja segja.“

Finna kjarkinn og hugrekkið

Myndin fjallar um að finna kjarkinn sinn og hugrekkið til að finna hver maður er. Eða eins og einn karakterinn segir: „Það er ekki nóg að vita hver þú vilt ekki vera, heldur verðurðu að vita hver þú vilt vera.“

Eins og fyrr segir er um dans- og söngvamynd að ræða og er það Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson sem útsetur tónlistina og semur nokkur ný lög sem Nanna Kristín svo skrifaði söngtexta við.

Fraumraun í textasmíði

„Það er í fyrsta sinn sem ég geri það,“ segir Nanna Kristín og bætir við að þar hafi hún sótt í eigin hugarheim og þá sjálfskoðun sem hún hefur farið í gegnum.

„Eitt lagið nefnist Hæ Ótti og annað Svarthvíta meðalmennskukrútt og fjallar um það að hanga í meðalmennskunni frekar en taka skrefið.“

Nanna Kristín segir það hafa verið áskorun að leikstýra með grímu enda skipti svipbrigði miklu fyrir leikarana.

Covid tökur áskorun

Tökur á myndinni fóru fram á meðan samkomutakmarkanir voru ýmist losaðar eða hertar hér á landi og segir Nanna Kristín það hafa verið sérstaka upplifun enda hafi tímabilið orðið mun lengra en vanalega og virkilega hafi reynt á skipulagshæfnina.

Rock On. Ísabella Jónatansdóttir í hlutverki sínu.

„Svo var ég að leikstýra með grímu og gleraugu og svo jafnvel heyrnartól og húfu. Fyrir leikara og þá sérlega börn skiptir miklu að sjá framan í leikstjóra, eitt bros getur sagt mikið, svo þetta var mikil áskorun.“

Nanna Kristín naut aðstoðar Hrefnu Hallgrímsdóttur við undirbúning ungu leikaranna en segir þó ekkert erfiðara að leikstýra börnum en fullorðnum.

„Þau eru lítið að velta hlutunum fyrir sér. Þau treysta manni og því sem maður segir.“

Yfir 200 börn komu að myndinni en meðal annarra var um að ræða körfubolta- og fimleikahópa, dansskóla og blásturshljómsveit.

Rimlarokk.

„En það eru 85 leikarar sem eru með nöfn svo það fór mikil vinna í að búa til karaktera og búninga þeirra og útlit. Þessi börn eru frábær – ég hefði ekki trúað því hvað þau geta.“

Nanna minnist á að yfirmenn allra deilda í framleiðslunni hafi verið konur, fyrir utan tónlistarstjórann, Þorvald Bjarna, sem vann að mestu að norðan þar sem hann býr.

„Ég tók sérstaklega fram við teymið að handritið væri ekki biblía. Allir máttu hafa skoðun á því. Það hjálpar svo mikið að fá annarra manna sýn.“

Hr. Rokk leggur línurnar.

Kvikmyndin Abababb fer í almennar sýningar þann 16. september næstkomandi og segir Nanna hana líklega vera fyrir áhorfendur sex ára og upp úr.

„En þetta er dans- og söngvamynd þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað sér til skemmtunar.“