Uppáhaldshlutverk Stan Lee

Ofurhetjugoðsögnin Stan Lee, höfundur Köngulóarmannsins, Hulk, Iron Man og fjölda annarra ofurhetja, hefur loksins upplýst hvert uppáhalds gestahlutverk hans í ofurhetjubíómyndum er.

Eins og aðdáendur Lee vita þá hefur hann komið fram í gestahlutverki í meira en 20 ofurhetjubíómyndum.

Í Deadpool, sem nú er í bíó sést hann til dæmis stuttlega í hópi berbrjósta nektardansmeyja, en margir hefðu getað giskað á að það væri uppáhalds gestahlutverkið hans. Svo er hins vegar ekki.

stan lee lee

Uppáhaldshlutverk hans er í raun hlutverkið sem hann lék í Avengers: Age of Ultron.

Stan Lee lætur nær aldrei tækifæri úr hendi sleppa að leika í ofurhetjumynd og hefur leikið í öllum ofurhetjumyndum Marvel og Disney. Hann birtist reyndar ekki í endurræsingu Fantastic Four, sem 20th Century Fox gerði síðasta sumar, en segir, í gríni, að það hafi orðið til þess að myndin floppaði í miðasölunni.

ComicBook.com ræddi við Lee á Silicon Valley Comic-Con ráðstefnunni um síðustu helgi þar sem Lee kom fram. Hann sagði í samtalinu að uppáhaldsatriðið sitt hafi verið þegar hann var í drykkjukeppni við Thor í Avengers 2, sem hann tapar illa.

„Ég elskaði þetta sem ég gerði, ég held það hafi verið í The Avengers 2, þegar ég vildi fá drykk sem Thor var að drekka. Það verður of sterkt fyrir mig, hugsaði ég. En ég drekk hann, og í næsta atriði er verið að bera mig út,“ sagði Lee.

Deadpool gestahlutverkið var fyrsta hlutverk Lee á þessu ári í bíómynd, en von er á honum í tveimur öðrum kvikmyndum á árinu, í Captain America: Civil War og Doctor Strange.

Sjáðu gestahlutverk Lee í Avengers: Age of Ultron hér fyrir neðan: