Undirheimar líknardrápa

Miele_(film)Miele eða Hunang eftir leikkonuna og leikstýruna Valeriu Golino er nú til sýninga í Bíó Paradís. Myndin vann til verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Cannes og áhorfendaverðlaun á Brussels European Film Festival 2013. Miele veltir upp áleitnum spurningum varðandi líknardráp en aðalpersóna myndarinnar Irene, kölluð Hunang, gerir allt til þess að létta undir með sjúklingum sínum.

Sagan gerist á Ítalíu, þar sem líknardráp er bannað með lögum. Líkt og það sem er bannað en er eftirsótt, þá eru undirheimar fyrir slíkt. Irene fær verkefni frá „undirheima samtökum“ sem sjá um að hjálpa líkamlega veikum einstaklingum við að deyja á sómasamlegan hátt. Sjúklingarnir í myndinni eru eins mismunandi og þeir eru margir. Allt frá veikri konu sem hefur löngu sætt sig við að deyja og vill klára það af sem fyrst, til ungs manns sem getur ekki tjáð sig og er það því í höndum móður hans að taka ákvörðunina.

Sagan tekur snúning þegar Irene fær verkefni við að hjálpa manni sem er andlega veikur við að deyja og fer það þvert á móti hennar gildum. Maðurinn er líkamlega hraustur og því verður hún meðvirk og byrjar að vingast við hann. Samband þeirra á milli verður náið og fallegt. Þó liggur alltaf mikil togstreita undir því Irene vill ekki að hann endi líf sitt.

miele1

Miele er einstaklega vel leikin og fylgir aðalpersónunni allan tímann. Hlutverkið er í höndum Jasmine Trinca sem leiðir okkur í ferðalag persónunar og siðferðiskennd hennar. Persónan er ung ítölsk kona sem leiðist inn í þennan undirheim. Myndin segir okkur ekki afhverju hún er að þessu eða hvað dregur hana áfram. Irene lifir ekki hátt og er ekki gráðug. Hún tekur starf sitt alvarlega og kemur alltaf fagmannlega fram þegar hún er að vinna vinnuna sína. Það er stundum eins og hún sé á vegum hins æðra, líkt og trúarlegt atriði í endanum gefur til kynna. Það er okkar að túlka.

Öll kvikmyndataka og hljóðvinnsla er til fyrirmyndar og algjörlega í takt við söguþráðinn. Leikstýran Valeria Golina ber mikla virðingu fyrir málsefninu og nær í leiðinni að fræða mann um líknardráp og sýna manni flestar hliðar málsins. Myndin tekur aldrei beina afstöðu til málsins, heldur spyr hún hvar okkar siðferðiskennd liggur og hvað er rétt og hvað er rangt. Miele er ekki kvikmynd sem matar áhorfandann, heldur vill hún okkar viðhorf.

Undirritaður sast niður með Guðnýju Rós Ámundadóttur eftir myndina og spurði hana út í hennar viðhorf. Guðný skrifaði áhugaverða ritgerð um líknardráp sem lokaritgerð sína í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Líkt og siðferðiskennd aðalpersónunar er, þá vill hún ekki aðstoða þá sem eru andlega veikir við að deyja. Afhverju ætti ekki að hjálpa þeim líkt og þeir sem eru líkamlega veikir? 

Eins og rannsóknir hafa sýnt að oft þegar fólk er með ólæknandi sjúkdóm, að þá er það ekki í efsta sæti útaf því fólk vill fara fyrr. Það er oft nefnilega þunglyndi og  vonleysi. En þetta er samt allt hægt að meðhöndla. Það er ekki hægt að meðhöndla suma líkamlega sjúkdóma, en það er hægt að meðhöndla þessa sálfræðilegu. Líknardráp á að vera einungis fyrir þá sem eru með ólæknandi sjúkdóm.

Afhverju vill fólk, sem getur tjáð sig og er með almenna hreyfigetu,  fá aðstoð við að deyja í staðinn fyrir að sjá um þetta sjálf? 

Skilgreining hefur oft verið með líknardráp að þetta sé fyrir einstaklinga sem geta ekki séð um þetta sjálfir að sökum sjúkdómsins, þar sem það verður einhver annar aðili að grípa inn í. Stundum er þetta fólk sem einfaldlega vill ekki sjá um þetta sjálft, því það er með ákveðna siðferðiskennd gagnvart þessu.

Hvernig sérðu fyrir þér framtíðina á Íslandi varðandi líknardráp?

Í dag eru þetta nokkrar ástæður að mínu mati. Það er fjárskortur í heilbrigðiskerfinu, það er heilbrigðisstarfsfólk sem er að flýja land og það er ekki nóg húsnæði. Heilbrigðiskerfið er bara einfaldlega ekki í stakk búið fyrir þetta. Svo hafa ekki verið gerðar nægar rannsóknir hér á landi um líknardráp. Ef heilbrigðiskerfið ætlar að fara út í þetta þá þarf að rannsaka þetta í kjölinn. Ef allir eru á móti þessu þá getum við alveg  eins sleppt þessum umræðum.

Nú var þetta komið í undirheimastarfsemi í kvikmyndinni, heldurðu að það sé í gangi hér á landi? 

Ég held að það sé eitthvað sem við getum ekki komist að, þetta er svo leynilegt. En aftur á móti getur þetta orðið mjög hættulegt og sett ættingja eða aðstandendur í mikla hættu. Þeir gætu orðið sakaðir um eitthvað. Þetta setur einnig þann sem hjálpar í hættu, því þetta er auðvitað ólöglegt. Ef þetta væri löglegt þá væru strangar reglur og engin væri að lenda í vandræðum. Þá væri þetta á yfirborðinu, á vegum stofnananna.

Hvernig er þetta að ganga í löndum sem leyfa líknardráp, líkt og í Belgíu?

Ég er alveg á móti því sem er í gangi þar, þetta er alveg komið út í hött. Ég var að lesa frétt þar sem einhver fór í kynskiptaaðgerð sem gekk ekki vel og leið illa eftir það. Þessi manneskja vildi einfaldlega deyja, það gekk eftir og sú manneskja var drepin með líknardrápi. Svo var tilfelli með tvíbura sem urðu blindir, þeir óskuðu einnig eftir líknardrápi og fengu það í gegn. Þetta fyrir mér er ekki líknardráp, það þarf eitthvað allt annað orð fyrir það sem er í gangi þarna.

Stikk: