Ultron er reitt vélmenni

Eins og fram kom fyrr í dag þá mun James Spader leika Ultron, lykilóvin The Avengers ofurhetjuteymisins í myndinni The Avengers: Age of Ultron.

Age-of-Ultron

Í tilkynningu sem Marvel sendi frá sér um ráðninguna er ekki tilgreint hvort að hinn þrefaldi Emmy verðlaunahafi úr þáttunum Boston Legal og The Practice, muni leika hlutverk vélmennisins Ultron með svokallaðri Motion-Capture aðferð, eins og Mark Ruffalo gerir þegar hann leikur Hulk, eða hvort að Spader ljáir persónunni einfaldlega rödd sína, en restin verði gerð með tölvutækninni.

Vefritið Smart Money segir að Spader muni líkega ekki eyða of miklum kröftum í leikinn þar sem hann hafi nóg á sinni könnu við að leika aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttunum The Blacklist sem hefur göngu sína á NBC þann 24. september nk. en þar leikur hann fyrrum flóttamann, sem vinnur við að hjálpa alríkislögreglunni FBI að elta hættulegustu glæpamenn í heimi.

Joss Whedon, leikstjóri The Avengers: Age of Ultron, sagði nýlega í samtali við Entertainment Weekly að persónan, Ultron, væri með gervigreind og mikla Guðs duld. Hann væri fullur af reiði í garð skapara síns og vildi ná yfirráðum á Jörðinni, með fulltingi eigin sköpunarverka.

„Lítið á hann sem vélmenni með rosalega pabba komplexa.“
„Ég elska Ultron sem persónu,“ segir Whedon. „Af því að hann er svo hrikalega reiður.“

Í Marvel teiknimyndasögunum er Ultron sköpunarverk vísindamannsins Hank Pym, öðru nafni Ant-Man. En af því að Ultron er hannaður til að vera með vitund og geta lært, þá fer hann fljótlega að vera of upptekinn af sjálfum sér sem endar með skelfingu fyrir alla í kringum hann.