Top Gun: Maverick fær fullt hús í Telegraph – besta spennumynd í mörg ár

Nýja Tom Cruise myndin Top Gun Maverick fær fullt hús stjarna, eða fimm stjörnur af fimm mögulegum í breska dagblaðinu The Daily Telegraph í dag.

Myndin verður frumsýnd á Íslandi 25. maí nk.

Hin ofurmyndarlegu Tom Cruise og Jennifer Connelly í hlutverkum sínum.

Segir gagnrýnandi blaðsins, Robbie Collin, að myndin sé spennandi, hreyfi við manni og sé Tom Cruise-leg á dýrlegan hátt. Þá segir hann að myndin, sem leikstýrt er af Joseph Kosinski, og er framhald Top Gun frá árinu 1986, sé án efa besta spennumynd síðustu ára, eða síðan Mad Max: Fury Road var frumsýnd árið 2015.

Í umfjölluninni segir gagnrýnandinn að fyrsta Top Gun myndin, sem bjó yfir miklum þokka frá hendi leikstjórans Tony Scott, gæti í dag litið út eins og hellamálverk. En á sínum tíma hafi hún verið mikilvæg fyrir Hollywood. Framhaldsmyndin sé jafn heillandi og fyrirrennarinn, sneisafull af myndrænum atriðum sem þú vissir ekki að þú væri brjálaður í að sjá, fyrr en akkúrat á sekúndunni sem þú sérð þau.

„Að horfa á endurkomu Cruise í hlutverki Maverick er svo fáránlega ánægjulegt að stórum hluta af því að leikarinn sjálfur nálgast hlutverkið af svo mikilli nautn.“