Tökur hafnar á Maður á syllu

Samkvæmt tilkynningu frá kvikmyndafyrirtækinu Summit Entertainment þá eru tökur hafnar í New York á spennumyndinni Maður á syllu, eða Man on a Ledge.

Söguþráðurinn er nokkuð áhugaverður. Fyrrum lögga og nú eftirlýstur flóttamaður, leikinn af Sam Worthington, sem þekktur er fyrir leik sinn í Avatar og Terminator, stendur á syllu á háhýsi á meðan samningamaðurinn, leikinn af Elizabeth Banks, reynir að fá hann af syllunni. Því lengur sem þau tvö eru á syllunni, því meira áttar hún sig á því að hér gæti legið fiskur undir steini, og annað búi að baki.

Auk þeirra Worthington og Banks, sem lék meðal annars í The Next Three Days, þá leika í myndinni Anthony Mackie, úr The Hurt Locker, sem leikur besta vin Worthington, og Jamie Bell, úr Billy Elliot, sem er yngri bróðir Worthington og stuðningsmaður. Einnig eru á meðal leikenda hinn ferfaldi óskarsverðlaunatilnefningahafi Ed Harris, sem leikur valdamikinn viðskiptajöfur. Edward Burns, leikstjóri og leikari sem lék meðal annars í 27 Dresses, er samingamaður og andstæðuringur Banks sem reynir að taka djobbið af Banks þegar svo virðist sem upp sé kominn hagsmunaárekstur milli Banks og Worthington. Genesis Rodriguez leikur síðan kærustu Bell sem aðstoðar hann við að sanna sakleysi Worthington.

Framleiðandinn Lorenzo di Bonaventure segir í tilkynningunni: „“Man on a Ledge“ er ótrúlega góður sálfræðiþriller með sterku leikaraliði. Ég hlakka til að framleiða þetta verkefni og að vinna aftur með Summit Entertainment, eftir að hafa unnið með þeim að spennu-gamanmyndinni RED.“

Leikstjóri er Asger Leth og Pablo F. Fenjves, Erich Hoeber og Jon Hoeber skrifa handritið.