Feisbúkk er líka vinsælt í bíó. Það er myndin The Social Network í það minnsta, en David Fincher og félagar áttu í litlum vandræðum með að hirða toppsætið af sjálfum Douglasinum og Wall Street: Money Never Sleeps um helgina í Bandaríkjunum.
Myndin fékk 23 milljónir dollara í kassann, en aðeins Panic Room og The Curious Case of Benjamin Button hafa náð hærri frumsýningartekjum af öllum myndum Finchers. Var þetta einnig meira en næstu tvær myndir samanlagt, teiknimyndaævintýrið Legend of the Guardians og áðurnefnd Wall Street-mynd, en þær, ásamt The Town, voru allar í kringum 10 millurnar.
Myndin fékk afbragðsdóma gagnrýnenda og spyrst bæði handritið og leikurinn í henni afar vel út, sér í lagi stjörnuleikur Justins nokkurs Timberlake í einu aðalhlutverkanna. Því má jafnvel búast við því að myndin haldi áfram að taka inn ágætis upphæðir næstu vikurnar.
Tveir spennutryllar um hættuleg börn voru frumsýndir um helgina vestra, Case 39 (sem er komin á DVD hér heima) og Let Me In, endurgerð sænsku snilldarinnar Let the Right One In. Það var viðbúið að Case 39 fengi dræma aðsókn, enda náði hún aðeins sjöunda sætinu með um 5,4 milljónir í kassann, en Let Me In olli gríðarlegum vonbrigðum, þrátt fyrir úrvalsgóða dóma, betri en flestar aðrar endurgerðir hafa fengið, og þurfti að sætta sig við áttunda sætið með aðeins 5,3 milljónir.
Það vekur athygli að með brottför Inception og Takers af topp-10 listanum eru engar myndir á listanum sem hafa verið lengur en þrjár vikur í bíó, og The Town er með hæstu heildaraðsóknina af 10 efstu myndunum, eða rúmar 64 milljónir á þremur vikum.
Um næstu helgi munu rómantíska gamanmyndin Life as We Know It, með Josh Duhamel og Katherine Heigl í aðalhlutverkum, hestaíþróttamyndin Secretariat (sem notar grunsamlega svipaða leturgerð og Seabiscuit á plakatið sitt) og Wes Craven-þrívíddartryllirinn My Soul To Take allar herja á ammríska bíógesti og þarafleiðandi stuðla að áframhaldandi hressilegri endurnýjun á topp 10-listanum.
-E.G.E