Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börnÍ myndinni er ljótt orðbragð

Let Me In 2010

(Fish Head)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 29. október 2010

Innocence dies. Abby doesn't.

116 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 88% Critics
The Movies database einkunn 79
/100

Spennumyndin Let Me In gerist í upphafi níunda áratugarins og segir frá hinum tólf ára gamla Owen, sem býr í afskiptum smábæ í Nýju-Mexíkó. Það gerist fátt í þessum bæ og því er fátt sem getur dregið athygli Owen frá því hversu afskiptur hann sjálfur er af foreldrum sínum og hversu illa er komið fram við hann í skólanum. Þar er hann lagður gegndarlaust... Lesa meira

Spennumyndin Let Me In gerist í upphafi níunda áratugarins og segir frá hinum tólf ára gamla Owen, sem býr í afskiptum smábæ í Nýju-Mexíkó. Það gerist fátt í þessum bæ og því er fátt sem getur dregið athygli Owen frá því hversu afskiptur hann sjálfur er af foreldrum sínum og hversu illa er komið fram við hann í skólanum. Þar er hann lagður gegndarlaust í einelti af hrottum skólans og fær hann litla hjálp frá kennurum eða fjölskyldu. Líf Owens breytist svo skyndilega þegar fullorðinn maður og dóttir hans flytja inn í blokkina sem hann býr í. Hann kynnist dótturinni, Abby smám saman, en þau eru á sama aldri og myndast brátt vinskapur með þeim, vinskapur sem hann hefur ekki notið áður. Hún hjálpar honum að kljást við hrottana í skólanum og virðist búa yfir innri styrk sem Owen hrífst af. Hins vegar kemur einnig fljótlega í ljós að Abby er ekki eins og aðrir krakkar á hennar aldri, sér í lagi þegar kemur að því hvenær hún getur verið utandyra, hvernig heimilið hennar er og ekki síst hvað henni finnst gott að borða.... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit

mjög fín.
Ég sá upprunalegu myndina í fyrra. Var með skjávarpa í láni, smellti henni upp á vegg og vá, ég var með myndina á heilanum næstu daga. Mér fannst hún, hjartnæm, skemmtileg, falleg og spennandi. Næstum því ef ekki alveg fullkominn.

Þannig að þegar ég vissi að það ætti að fara gera endurgerð, þá var ég spenntur að sjá hvernig mynd kæmi úr smiðju kanans.

Myndin byrjar allt öðruvísi en upprunalega, strax erum við látinn vita að eitthvað gruggugt sé á seiði. Þegar við fylgjumst með sjúkrabílnum og sjáum slasaða manninn, sem greinilega er eitthvað, bogið við.

Svo fáum við að kynnast Owen, sem er lítill feimin strákur, sem er lagður í einelti og á enga vini.Við kynnumst lífi hans. Í báðum myndum, fanst mér mömmurnar, algerlega ósýnilegar. Þannig að það var eins og hann myndi lifa bara í sínum egin heimi. Svo kynnist hann Abby, hún er öðruvísi, og dökk eins og hann. Þau smella strax saman. Svo hægt og bítandi, fáum við að kynnast skuggahliðum, Abby.

Mér fannst samt þegar Abby breyttist í vampíru full gervilegt, og fannst fyrri myndin, mun betur heppnuð. Ég ætla ekkert að segja meira um myndina. Nema þetta er ein af þeim betri, sérstaklega sjónræn vinnsla. Fyrri myndin er hjartnæmari en sú seinni, sem er dökk og subbuleg. Ég ætla ekki að segja meira til að spilla ekki myndinni.

Mæli sterklega með henni. 4/5
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Jújú
Alveg þokkaleg “öðruvísi“ vampýrumynd um tólf ára gamlan strák(Kodi Smit Mcphee) sem eignast vinkonu(Chloe Moertz) sem reynist vera vampýra. Þrátt fyrir að Let Me In sé full hæg og komist aldrei á fullt skrið þá nær hún að byggja upp vissa spennu og verður ekki fyrirsjáanleg fyrr en undir lokin. Hún byrjar með opnum hug en því miður tekur hún fyrirsjáanlega stefnu í seinni hálfleik. Krakkarnir léku alveg ágætlega, mér fannst þau ná vel saman miðað við hvað persónurnar bjóða upp á lítið í handritinu. Það böggar mig helst varðandi Let Me In hvað það er margt sem ekki er skýrt nógu vel t.d. fáum við ekkert að kynnast fortíð Abby(Moertz) eða einhverja skýringu á karlinum(Richard Jenkins). Ég varð kannski fyrir smá vonbrigðum með Let Me In en fannst hún samt fín. Einkunn yfir meðallagi og lausleg meðmæli.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Svona *Á* að gera þetta rétt!
Ég, eins og svo margir aðrir, hata þá tilhugsun að hafa mikið rangt fyrir mér. Einhvern veginn á ég samt erfitt með að vera svekktur út í sjálfan mig núna því í þessu tilfelli borgaði það sig margfalt. Þegar ég sá Let the Right One in á sínum tíma var ég hrifinn en ekki ástfanginn. Svíum tókst að skila frá sér gífurlega vel heppnaðri vampírumynd sem var á sama tíma ein sú besta sem ég hafði lengi séð í þeim geira. Frábær var hún samt alls ekki, og mér finnst ég vera í minnihluta þegar ég segi það. Sagan var virkilega góð þrátt fyrir að vera svolítið götótt, en það sem fangaði mestmegnis athygli minni var leikurinn, samskipti lykilpersónanna og stíllinn. Myndin var í fínu lagi eins og hún var. Mér fannst augljóslega margt mátt vera betur meðhöndlað, en einhvern veginn grunaði mig ALDREI að amerísk endurgerð myndi gera nákvæmlega það. Þarna hafði ég rangt fyrir mér, en græt þess engan veginn.

Jú jú, það eru alveg til margar, margar góðar endurgerðir, og jafnvel amerískar. Hins vegar er oft langt á milli þeirra og flóð slíkra mynda sem feila er svo mikið að maður fær samstundis vonda tilfinningu þegar maður heyrir af því þegar einhverjir ætla að endurgera mynd sem er þegar góð. En helst ástæðan fyrir því að ég hafði enga trú á amerískri útgáfu af þessari sögu var einföld. Mér datt í hug að einhverjir peningagráðugir framleiðendur vildu notfæra sér vampíruæðið sem Twilight og True Blood hafa skapað með því að taka þekkta, skandinavíska mynd (sem mjöööööög fáir kanar horfa á), slátra henni í drasl og gera úr henni örugga mainstream-mynd með fallegu fólki í aðalhlutverkum. Enn og aftur játa ég mig sigraðan, því Matt Reeves gerir ekki gömlu myndinni einungis réttlæti, heldur betrumbætir hann söguna alveg undarlega vel. Kannski er ég enn eitt skiptið að koma mér í einhvern minnihluta en mér fannst Let Me In talsvert betri en sú sænska.

Reeves er ekki að kópera frummyndina á t.d. svipaðan máta og Michael Haneke afritaði sína eigin mynd hitt í fyrra. Nei, hann tekur sömu sögu, breytir henni aðeins og gefur henni öðruvísi tón án þess að skemma innihaldið eða sýna því algjöra óvirðingu eins og ég mátti búast við. Kjarninn er akkúrat sá sami en múdið er allt öðruvísi en var í hinni myndinni og þess vegna leið mér ekki eins og ég væri að horfa á hana aftur. Let Me In er alveg jafn vel leikin, jafn vönduð og jafn sterk og sú sænska, ef ekki aðeins kröftugri. Hún er sömuleiðis dekkri á vissum stöðum og einnig grimmari þegar kemur að ofbeldinu. En helsta ástæðan fyrir því að ég fíla þessa betur er sú að hún skafar burt þá ónauðsynlegu fitu sem hin hafði. Hún er líka skýrari í sinni frásögn (sem þýðir að gloppur eru litlar sem engar), flæðir betur og er sem betur fer laus við þetta djöfulsins árásaratriði með köttunum, sem mér fannst alveg nett hallærislegt í seinustu umferð. Hún skiptir því m.a. út fyrir eitthvað það flottasta bílslysatriði sem ég hef séð langa lengi. Ég held að ég hafi ósjálfrátt misst út úr mér smá "vá" viðbrögð.

Sem fyrr þá selja krakkarnir söguna, og hefðu þeir klikkað í sínum kröfuhörðu rullum yrði öll myndin vægast sagt vandræðaleg. Það var skynsamleg ákvörðun hjá stúdíóinu að velja tvo hæfustu barnaleikara sem hafa sést á skjánum síðustu misseri. Chloe Moretz heldur áfram að sýna nýjar hliðar á sér með hverri mynd og Kodi Smit-McPhee (sem stóð sig hörkuvel í túrbódramanu The Road) spilar fullkomlega á móti henni. Það sést að þessir krakkar eru ekki að apa eftir sænsku leikurunum enda var þeim bannað að horfa á frummyndina á meðan þessi var í vinnslu. Moretz er samt meira áberandi ólík hinni stelpunni, þrátt fyrir að leika sömu persónu. Abby í Let Me In þótti mér vera meira sympatísk heldur en Eli (sem Lina Leandersson lék), sem var kannski fullorðinslegri og nær því að tæla Óskar (sem hér ber nafnið Owen). Abby er meira að leita sér að vin. Þetta er nákvæmlega það sem fleiri endurgerðir ættu að gera; Gefa manni það sama og frummyndirnar gerðu, en samt ekki. Fattið?

Let Me In fær líka virkilega stóran plús á sig fyrir áhrifaríka tónlistarnotkun. Hvað soundtrack-ið varðar verð ég samt að setja spurningarmerki við það hvort notkunin á Let‘s Dance með David Bowie hafi átt að vera brandari eða ekki. Það virkaði fyrstu tvö skiptin, en svo í þriðja fór það að vera pínu furðulegt. Annars virkar myndina algjörlega og gerir mestallt rétt. Það er ótrúlega gaman að sjá vel farið með efnilega sögu sem er óvenjuleg, truflandi en í senn dálítið hjartnæm. Hvað síðustu ár varðar verð ég að segja að þetta sé besta vampíru(drama)mynd sem ég hef séð síðan... guð má vita hvenær! Það eina sem hefði mátt setja meiri pening í voru tölvubrellurnar. Sum skotin virkuðu eins og þau voru ókláruð og hreyfingarnar voru alltof ónáttúrulegar, og ekki á þannig hátt að það virkaði betur fyrir söguna. Þetta var frekar bara ljótt. Burtséð frá því eru kvartanir hjá mér í lágmarki.

Og ef þið viljið skoða það sem ég hafði um hina myndina að segja, þá bendi ég á eftirfarandi link:
http://kvikmyndir.is/KvikmyndirMovie/entry/movieid/4738

8/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

04.05.2021

Þessar framhaldsmyndir eru betri en þær fyrri

Kvikmyndalistformið hefur nú verið til í á annað hundrað ár og enn virðist fólk vera þeirrar skoðunar að framúrskarandi framhaldsmyndir séu fágætar. Góð framhaldsmynd er oftast nær verk sem byggir ofan á þa...

15.09.2015

Harrelson illmenni í Planet of the Apes 3

True Detective og Hunger Games leikarinn Woody Harrelson hefur verið ráðinn í hlutverk aðal mennska illmennisins í þriðju Apaplánetumyndinni, War of the Planet of the Apes. Lítið meira er vitað um ráðninguna, en þ...

20.02.2013

Jason Clarke í Dawn of the Planet of the Apes

Nú liggur ljóst fyrir að leikarinn Jason Clarke mun fara með aðalhlutverk í kvikmyndinni Dawn of the Planet of the Apes. Hér er um að ræða framhald af kvikmyndinni Rise of the Planet of the Apes sem kom út árið 2011 og vakti mikla lukku. Jason Clarke er ...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn