Náðu í appið
Öllum leyfðÍ myndinni er ljótt orðbragð

Life as We Know It 2010

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 3. desember 2010

A comedy about taking it one step at a time.

114 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 30% Critics
The Movies database einkunn 39
/100

Holly og Eric fóru á blint stefnumót, sem vinir þeirra og hjónin Peter og Allison komu þeim á. Nokkrum árum síðar þegar Peter og Allison láta lífið í slysi, þá komast þau að því að Peter og Allison hafa nefnt þau sem verndara dóttur sinnar Sophie. Holly og Eric flytja því inn í hús vina sinna og reyna sitt besta til að verða við óskum þeirra. En... Lesa meira

Holly og Eric fóru á blint stefnumót, sem vinir þeirra og hjónin Peter og Allison komu þeim á. Nokkrum árum síðar þegar Peter og Allison láta lífið í slysi, þá komast þau að því að Peter og Allison hafa nefnt þau sem verndara dóttur sinnar Sophie. Holly og Eric flytja því inn í hús vina sinna og reyna sitt besta til að verða við óskum þeirra. En það að takast óvænt á við foreldrahlutverkið, er kannski ekki alveg það sem þau bjuggust við að lenda í, og veldur þeim ýmsum vandræðum.... minna

Aðalleikarar

Jafn ánægjuleg og tveggja tíma barnsgrátur
Hvað gerist þegar einhver reynir að búa til hjartnæma, hlýja og fyndna mynd en mistekst alveg skelfilega og nær ekki einu af þessum þremur markmiðum? Nú þá stendur auðvitað eftir mjög vandræðaleg, væmin og húmorslega þvinguð mynd og það er nákvæmlega ein af mörgum neikvæðum lýsingum sem á við um Life as We Know It. Þetta er alveg meistaralega feiluð tilraun til þess að skapa feel-good afþreyingarmynd sem þykist vera svo raunsæ, fyndin og sniðug. Það sjá það samt allir sem berja hana augum að hún er ekkert annað en tröllvaxið ílát af klisjum og að segja að hver einasta sena sem hér finnst sé endurunnin á einhver máta er skömmustulega vægt til orða tekið.

Þessi mynd er svo mikil uppskrift að ég var farinn að drepa tímann með því að spila leik sem ég bjó til sem heitir "spottaðu klisjuna og spáðu í framhaldið." Hún náði augljóslega ekki að fanga athygli mína með einhverju öðru, sem hún hefði svosem getað gert með betri leikstjórn, minna melódrama, meiri húmor og skjápari sem manni langaði til að sjá enda saman. Ég skal samt gefa ykkur dæmi um það sem handritið býður upp á sem við höfum séð trilljón sinnum áður (Spoiler, að sjálfsögðu - en í alvöru, er einhverjum ekki sama?)

- Karl og kona kynnast. Þau þola ekki hvort annað.
- Hann er léttlyndur en grunnhygginn "player" sem hugsar um fátt annað en vinnuna sína og kynlíf. Hún er meira eða minna andstæða við hann. Mikið þras á sér stað.
- Þau gerast skyndilega foreldrar og neyðast til þess að þola hvort annað.
- Flækjurnar byrja. Krakkinn hefur áhrif á "stílinn" hans. Ætli föðurhlutverkið henti honum?
- Hún byrjar að deita góðan gaur (lekinn af grátlega vannýttum Josh Lucas), en er hann sá rétti?
- Þau sofa saman. En óvænt!
- Hann byrjar að láta eins og skíthæll.
- Honum býðst til að flytja í annað fylki útaf betri vinnu (þetta er über-klisja!), en mun hann þiggja það?
- Þau rífast og sundrast.
- Hann áttar sig á því sem skiptir mestu máli í lífinu, og breytist þ.a.l. úr skíthæl yfir í góða gæjann.
- (ÜBER-KLISJA NR. 2!!) Ástarjátning á flugvelli! Handahófskenndur flugmiði er keyptur svo annar aðilinn geti hlupið í gegnum flugstöðina til að segja að hinn sé sá rétti. Mun það nást??

Ath. Þetta er aðeins atburðarásin í hnotskurn. Ég myndi glaðlega kryfja myndina nánar til að benda á formúlurnar en það tæki margar blaðsíður. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta óbærilegur skammtur af hinu kunnuglega. Meira að segja aðalleikararnir eru ekki að gera rassgat sem gæti talist nýtt hjá þeim. Katherine Heigl átti gott hlutverk í Knocked Up en svo fór hún bara að leika sömu persónuna, aftur (27 Dresses) og aftur (The Ugly Truth) og AFTUR (Life as We Know It). Josh Duhamel er sjálfur í nákvæmlega sama gír og hann var í When in Rome, sem er frekar aumt, en maðurinn hefur samt óneitanlegan sjarma (Ég held að ég sé kominn með smá "man-crush" á hann!) og hann bjargar því sem bjarga skal í þessari mynd. Þau tvö ná þokkalegum neista saman en handritið fer þannig með persónurnar að maður heldur aldrei almennilega upp á þær. Það er líka svo mikill sitcom-fílingur í þessu öllu, sem er alveg nógu vandræðalegur. Og svo þegar myndin reynir að losa sig við hann, þá dettur hún út í eitthvað mun verra. Ekki gaman.

Life as We Know It ætti að virka á kvenfólk sem ekki er aðeins ónæmt fyrir klisjum, heldur tekur á móti þeim með fögnuði. Ef þú ert kvikmyndafrík skaltu forðast hana með mikilli þrjósku. Og ef kærastan á vídeóvalið og stingur upp á þessari skaltu frekar sannfæra hana um að velja Going the Distance í staðinn. Bara uppástunga, enda margfalt betri mynd. Ekki nema kallinn sé búinn að vera leiðinlegur. Þá er þetta kjörin leið til að hefna sín á honum.

3/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn