Teller ræðir framhald Top Gun: Maverick

Í kjölfar gríðarlegra vinsælda Top Gun: Maverick í bíó um allan heim, þar á meðal hér á landi, þar sem myndin er enn í sýningum, þá hefur einn aðalleikarinn ljóstrað því upp að hann „eigi í samtölum“ um framhaldsmynd. Frá þessu er greint í vefritinu Deadline.

Miles Teller í Top Gun: Maverick.

Miles Teller, sem leikur Rooster, son Goose, fyrrum besta vinar Maverick, sem Tom Cruise leikur í myndinni, sagði við Entertainment Tonight: „Ég hef rætt við hann [ Tom Cruise ] um það. Sjáum til.“

Fregnin mun án efa kæta aðdáendur Top Gun, frá 1986, og Top Gun: Maverick, sem hafa flykkst í bíó á síðustu vikum til að berja goðin augum í nýju myndinni.

Fyrir nokkrum dögum síðan sigldi myndin yfir einn milljarð Bandaríkjadala í tekjur á heimsvísu og varð tekjuhæsta kvikmynd ársins. Hún sló þar með við Marvel myndinni Doctor Strange in the Multiverse of Madness.

Tom ræður öllu

Teller bætti þó við, að ákvörðunin lægi alfarið hjá Cruise, sem var, eins og mörgum er enn í fersku minni, tregur til að gera framhaldsmyndina, þó svo hann hafi á endanum gefið grænt ljós.

„Það yrði frábært, en það fer allt eftir TC,“ sagði Teller. „Tom ræður þessu algjörlega.“

Cruise í London

Á sama tíma og þessar fregnir berast hefur Cruise verið á fullu að mynda nýjustu Mission Impossible myndina, en á milli þess sem hann hefur barið tennis augum á Wimbledon, og horft á gömlu rokkhundana í Rolling Stones í Hyde Park, hefur hann tekið upp atriði fyrir MP í Lundúnum.