Cruise kom á þyrlu á frumsýningu Top Gun

Tom Cruise gerir nú víðreist um heiminn til að kynna nýjustu mynd sína Top Gun: Maverick, sem hefur verið að fá góðar viðtökur gagnrýnenda. Í gær var hann til dæmis viðstaddur góðgerðarsýningu í Lundúnum að viðstöddum hertoganum og hertogaynjunni af Cambridge og á dögunum var hann viðstaddur heimsfrumsýningu myndarinnar í San Diego í Kaliforníu.

Kappinn mætti á svæðið með sannkölluðum glæsibrag í USS Midway þyrlu sem hann flaug sjálfur. Hann vippaði sér síðan út og rölti sallarólega að rauða dreglinum í glansandi smóking jakkafötum.

Góðar viðtökur

Cruise fékk góðar viðtökur frá viðstöddum sem hafa beðið í 36 ár eftir framhaldi upprunalegu myndarinnar, Top Gun frá árinu 1986.

Það fór vel á með Cruise og meðleikurum hans sem stilltu sér upp til myndatöku en meðal þeirra var Miles Teller sem leikur Bradley Bradshaw, son Nick Bradshaw, einnig þekktur sem Goose í upprunalegu Top Gun myndinni.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af Cruise að koma í þyrlunni og þar fyrir neðan eru nokkrar myndir af rauða dreglinum.

Top Gun: Maverick verður frumsýnd 25. maí hér á landi.

Tom Cruise tekur til máls á frumsýningunni í San Diego.
Plakatið er glæsilegt.
Tom Cruise á rauða dreglinum.
Jennifer Connelly mætir á svæðið.
Monica Barbaro á rauða dreglinum.
Jerry Bruckheimer framleiðir myndina.
Dana Goldberg, meðframleiðandi, Chad Oman, meðframleiðandi og Don Granger, meðframleiðandi á frumsýningunni.
Tónlistarmaðurinn Kenny Loggins og Jennifer Connelly.
Jerry Bruckheimer og Lyliana Wray.
David Ellison, framleiðandi og Don Granger.
Bashir Salahuddin, Anna Osceola, Jon Hamm og Chandra Russell