Ætla að endurgera Cujo

Það eru liðin 30 ár síðan hryllingsmyndin um hundinn Cujo var frumsýnd. Í tilefni þess hefur upprunalega framleiðslufyrirtæki myndarinnar gefið út yfirlýsingu um að þeir ætli að endurgera myndina um morðóða hundinn í tilefni afmælisins.

Cujo fjallar um St. Bernard hund sem breytist í morðingja eftir að hann sýkist af hundaæði. Cujo er orðinn gamall og er að eltast við kanínu sem flýr ofan í holu. Cujo festist í holunni og þar er hann bitinn af leðurblöku. Eftir bitið fer hann að breytast í morðingja og verður var við manneskjur sem verða fyrir því óláni að bíll þeirra bilar í návist hans.

Framleiðslufyrirtæki myndarinnar heitir Sunn Classic Pictures og hafa þeir ekki gert kvikmynd frá árinu 1987 og er haldið að þeir séu að lofa upp í ermina á sér. Þrátt fyrir það eiga þeir réttinn á handritinu og það er alls ekki galin hugmynd að endurgera Cujo með þeirri tækni sem kvikmyndagerð býr yfir í dag. Það þykir líka ólíklegt að kvikmyndin verði frumsýnd á afmælisárinu þar sem myndin er einungis á fjáröflunarstigi.

Sunn Classic Pictures birti nýverið myndband sem er hluti af fjáröflun þeirra.