Svartur á met!

Íslenska glæpamyndin Svartur á leik var frumsýnd á föstudaginn, eins og kannski menn hafa tekið eftir, og það lítur ekki út fyrir annað en að hún hafi farið af stað með pomp og prakt. Hún gerði allt vitlaust um helgina í öllum þeim kvikmyndahúsum þar sem hún var sýnd og seldist upp á langflestar sýningar.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Senu sáu rúmlega 8.200 myndina um helgina sem þýðir að rúmlega 10 þúsund manns hafa séð myndina í heildina, en hún var forsýnd bæði miðvikudag og fimmtudag.

Aðsóknin var í krónum talið hvorki meira né minna en 11,7 milljónir sem þýðir að hér erum að ræða langstærstu opnun ársins og slær Svartur á leik þar með við kvikmyndinni Contraband eftir Baltasar Kormák. Þetta þýðir ennfremur að um er að ræða 3ju stærstu opnun allra tíma á íslenskri kvikmynd. Svartur á leik slær við annarri Sveppamyndinni, Dularfulla hótelherbergið, og einu myndirnar sem hafa opnað stærra eru Mýrin og Bjarnfreðarson, tvær af aðsóknarhæstu myndum allra tíma hérlendis. Og að lokum má geta þessa að hér er um að ræða stærstu opnun allra tíma hérlendis á kvikmynd sem er bönnuð innan 16 ára.

Þetta er það sem gerist þegar góðar íslenskar myndir eru gerðar. Ætli þetta þýði að Svartur á leik 2 komi til greina?

Hvernig fannst þér annars myndin? Ertu sammála þessum hérna gaur?