Sprettfiskar óskast

shortfishKvikmyndahátíðin Stockfish Film Festival óskar eftir stuttmyndum á næstu hátíð sem haldin verður í Bíó Paradís dagana 23. febrúar til 5. mars 2017. Fimm til sex íslenskar stuttmyndirnar eru valdar á hátíðina ár hvert og fara í sérstakan keppnisflokk sem nefnist Sprettfiskur.

Árið 2016 vann myndin Like it’s up to you í leikstjórn Brynhildar Þórarinsdóttur og  árið 2015 vann myndin Foxes framleidd af Evu Sigurðardóttur og í leikstjórn Mikel Gurren en myndin hefur einmitt hlotið alþjóðleg verðlaun í kjölfarið. Stuttmyndirnar mega vera að hámarki 30 mínútur og ekki meira en ársgamlar.

Hátíðin gerir þá kröfu að myndirnar hafi ekki verið sýndar opinberlega og að þær verði frumsýndar á hátíðinni. Aðeins íslenskar stuttmyndir koma til greina, eða myndir sem skarta íslenskum leikstjórum eða framleiðendum.

Skilafrestur er til 19. janúar og verða fimm til sex myndir valdar á hátíðina sem munu síðan keppa um verðlaunin Sprettfiskur 2017. Vegleg verðlaun verða veitt fyrir vinningsmyndina en líkt og áður, er dómnefndin skipuð íslenskum kvikmyndagerðarmönnum.

Allar umsóknir skulu sendar á shorts@stockfishfestival.is

Stockfish er hátíð kvikmyndaunnenda og byggir á grunni Kvikmyndahátíðar í Reykjavík sem stofnuð var 1978. Markmið Stockfish er að sýna það besta í listrænni kvikmyndagerð í heiminum auk þess að efla samtal almennings og fagstétta um kvikmyndagerðina sjálfa. Þannig vonast aðstandendur hátíðarinnar til að styrkja íslenska kvikmyndagerð enn frekar í sessi.

Um þrjátíu kvikmyndir í fullri lengd verða sýndar á hátíðinni auk valinna verka kvikmyndagerðarmanna sem boðið verður til landsins. Á meðal gesta verða þekktir verðlaunaleikstjórar og aðrir alþjóðlegir kvikmyndagerðarmenn. Allar frekari upplýsingar veitir er að finna á www.stockfishfestival.is