Skapari Paranormal Activity upptekinn

Eftir að hafa skapað farsæla hryllingsmyndaseríu árið 2007 með myndinni Paranormal Activity, hefur lítið sem ekkert heyrst frá leikstjóranum Oren Peli. Hann sat sem einn framleiðandi Insidious í fyrra, en ný hryllingsmynd frá manninum hefur verið mjög eftirsótt, a.m.k. frá undirrituðum, enda virðist sem að það búi einhverjir hæfileikar í honum. Hvort sem að það sé rétt eða rangt, þá er hann ansi upptekinn um þessar mundir við að skrifa tvær hryllingsmyndir og mun hann taka það að sér að leikstýra annarri.

Hann byrjaði að vinna að myndinni Area 51 um haustið 2009 sem bæði handritshöfundur og leikstjóri, en hún mun notast við „found-footage“ aðferðina og fjallar um hryllinginn sem nokkrir unglingar upplifa þegar að þeir ráfa inn á herstöðina goðsagnakenndu; Area 51. Enginn útgáfudagur hefur verið staðfestur, en að öllum líkindum kemur hún út annaðhvort í enda ársins eða byrjun þess næsta. Tökur hófust í vikunni í Austur-Evrópu fyrir síðara verkefni Peli, The Diary of Lawson Oxford, sem hann skrifaði. Hún fjallar um hóp vina sem einangrast í yfirgefinni borg mörgum árum eftir að kjarnorkustríð splundrar mannkyninu. Í stíl við sögur af þessum toga, komast vinirnir fljótt að því að þau eru ekki ein í bænum.

Flestir leikarar myndarinnar eru ný andlit með óþekktan bakgrunn. Þetta verður einnig fyrsta mynd Bradley Parker sem leikstjóri, en á undan því sá hann um sjónrænu hlið margar frægra kvikmynda. „Ég elska vinnuna mína. Ég fæ að vinna með hæfileikaríkum leikstjórum eins og Brad [Parker] að hryllingsmyndum sem ég veit að ég myndi sjálfur bíða spenntur eftir að sjá,“ sagði Peli um myndina og samstarf sitt með Parker.

Það er auðvitað ekki hægt að fagna eða gráta fyrr en meira er gefið út fyrir báðar myndirnar, en það eitt að vita að Peli er með tvær hryllingsmyndir í vasanum er nóg fyrir mig í bili.