Sæbjörn spáir í Óskarinn

Sæbjörn Valdimarsson, kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins um áratugaskeið, spáir því í Sunnudagsmogganum í dag að þrívíddarmyndin Avatar, stríðsmyndin The Hurt Locker og gamanmyndin Up in the Air muni takast á um Óskarinn fyrir bestu mynd, en alls keppa 10 myndir nú um hnossið í stað 5 áður.  Hinar 7 myndirnar telur Sæbjörn að eigi ekki eins mikla möguleika.

Sæbjörn telur að þýska myndin Hvíti borðinn eða franska myndin Spámaður bítist um verðlaunin fyrir bestu erlendu myndina.

Eins og Sæbjörn bendir á þá verður gaman að fylgjast með fyrrum hjónunum James Cameron og Kathryn Bigelow takast á um verðlaunin fyrir bestu leikstjórn, en Cameron leikstýrði Avatar, en Bigelow Hurt Locker.  Gagnrýnandinn telur að Cameron hirði styttuna, en ef ekki hann þá taki Bigelow hana.

Í flokknum besti karlleikari í aðalhlutverki telur Sæbjörn að hinn „ástsæli“Jeff Bridges fái verðlaunin fyrir Crazy Heart en George Clooney geti velgt honum undir uggum með frammistöðunni í Up in the Air. „..en afhverju þurfti George Clooney, annar hágæðaleikari og ámóta sjarmör, dáður hér sem annars staðar, að sýna besta leik ferilsins á þessu sama ári?[og Bridges.innsk. blaðamanns].“

Besta leikkonan í aðalhlutverki. „Einn af veikleikum Kvikmyndaakademíunnar er að veita af og til hæfileikalitlum fegurðardísum þessa eftirsóttustu vegsemd kvikmyndaheimsins. Julia Roberts, Gwyneth Paltrow, Halle Berry…. Allar státa þær af Óskar sem bestu leikkonur í aðalhlutverki en litlum leiklistarhæfileikum. Hætt er við að enn ein, Sandra Bullock, bætist í þennan föngulega hóp í ár fyirr göngu sína í gegnum The Blind Side..“ segir Sæbjörn um þann flokk.

Í verðlaunaflokknum fyrir leik karls í aukahlutverki virðist Sæbirni lítast best á Christoph Waltz í hlutverki Hans Landa í Inglourious Basterds, en hann segir frammistöðu hans í þeirri mynd sé það minnisstæðasta við myndina.  Hann telur að Christopher Plummer og Woody Harrelson geti þó komið á óvart á góðum degi, Plummer fyrir The Last Station og Harrelson fyrir The Messenger.

Besti kvenleikari í aukahlutverki telur Sæbjörn að sé Mo´Nique fyrir leik sinn í myndinni Precious. „…malar óskarinn í ár.“

Besta handrit byggt á áður birtu efni telur Sæbjörn að sé handritið að geimverumyndinni District 9 og besta frumsamda handritið sé The Hurt Locker sem beri ægishjálm yfir aðra í flokknum.

Sæbjörn spáir í hitt og þetta fleira í sinni grein, og er fólki bent á að kíkja í Moggann til að lesa frekar um hvað Sæbirni finnst fleira.

Nú er bara spurning hvort að menn séu sammála Sæbirni, og hvort að þessi gamalreyndi kvikmyndasérfræðingur verði sannspár.