Rotturnar taka völdin – Fyrsta stikla

Rottur eru nýjasta viðfangsefni heimildargerðarmannsins Morgan Spurlock, en hann er þekktur fyrir myndir eins og Supersize Me, þar sem hann borðaði McDonalds máltíðir þrisvar á dag í heilan mánuð, og One Direction: This is US, sem fjallaði um strákahljómsveitina One Direction.

rotta

Í þessari nýjustu mynd Spurlock, sem ber heitið RATS, er skoðaður vöxtur og viðgangur rottustofnsins í heiminum, en hann ku vera orðinn afar ógnvekjandi.

„Ef við hverfum [mannfólkið] þá taka rotturnar völdin,“ segir meindýraeyðirinn Ed Sheehan í fyrstu stiklu fyrir myndina, sem var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto nú fyrr í mánuðinum.

rotta 2

Í stiklunni kemur fram að rottur þróast tíu sinnum hraðar en mannfólkið, og sífellt erfiðara reynist að drepa þær.

Myndin er að hluta til byggð á metsölubók Robert Sullivan,  Rats: Observations On The History & Habitat Of The City’s Most Unwanted Inhabitants.

Í myndinni eru rottur skoðaðar víða um heim, m.a. í París, Kambódíu, Indlandi, Víetnam og nokkrum borgum Bandaríkjanna.

„Rottur búa í holræsunum. Þær geta synt upp,“ segir hann þegar við fáum að sjá rottu gægjast upp um klósettskál.  „Og þegar rotta bítur þig, þá snýr hún upp á.“

Miðað við það sem fram kemur í stiklunni var Spurlock meinað að fara ofaní holræsi New York borgar, sem gæti þýtt að þar sé vandinn mikill…

Áhorfendur, þeir sem hafa geð í sér til að horfa, munu fá að skoða rottur í mikilli nálægð í myndinni, og í stiklunni hér fyrir neðan:

RATS verður frumsýnd á Discovery sjónvarpsstöðinni 22. október, rétt fyrir Hrekkjavökuhátíðina.