Rokklifnaður festur á filmu

Jackass leikstjórinn Jeff Tremain, sem leikstýrt hefur öllum þremur Jackass bíómyndunum sem og þeirri allra nýjustu, Bad Grandpa sem nú er sýnd í bíó við miklar vinsældir, ætlar að leikstýra mynd um glysrokksveitina Motley Crue. Myndin verður byggð á endurminningum hljómsveitarinnar sem kallast The Dirt.

tremaine-crue-dirt

Hljómsveitarmeðlimir sjálfir, þeir Vince Neil, Nikki Sixx, Tommy Lee og Mick Mars, skrifuðu bókina, sem var metsölubók þegar hún kom út árið 2001.

Bústið hár, yfirdrifinn hljómur, miklir peningar, hávaðarifrildi, svall og ólifnaður, í sambland við vandamál vegna eiturlyfja, áfengis og hins dæmigerða rokk og ról lífsstíls, er það sem einkennir sögu hljómsveitarinnar, sem varð til í Kaliforníu og náði heimsfrægð.

„Ég sé myndina fyrir mér tekna í heimildamyndastíl. Að fylgjast með hljómsveitinni út frá því sjónarhorni mun gefa myndinni hreinni og beinni nálgun og tilfinningu,“ sagði Tremaine um myndina.

Ekki er búið að ráða í nein hlutverk ennþá, en hljómsveitarmeðlimir eru með í verkefninu sem framleiðendur.