Í stuttu máli er „Game Night“ frekar mikil vonbrigði.
Max og Annie (Jason Bateman og Rachel McAdams) hafa gaman af leikjakvöldum og eyða einu kvöldi í viku ásamt tveimur öðrum pörum við slíka iðkun. Bróðir Max, Brooks (Kyle Chandler) skýtur óvænt upp kollinum og splæsir í almennilegt ráðgátukvöld sem felur í sér alvöru leikara og þykjustu mannrán. En viti menn; Brooks sjálfum er rænt af alvöru glæpamönnum en spilafíklarnir átta sig ekki í fyrstu að um alvöru mannrán er að ræða og framundan er spilakvöld hlaðið spennu og raunverulegri hættu.
Frábær efniviður. Svo sem ekki alveg nýr af nálinni en býður upp á endalausa möguleika. Einnig var sýnishornið sérstaklega skemmtilegt og rýnir bjó sig undir eðal kvöldskemmtun. Því miður kom á daginn að flest öll virkilega fyndnu atriðin höfðu þegar birst í sýnishorninu.
„Game Night“ er helst til of kjánaleg með ótrúverðugum og gervilegum persónum, handritið er rislítið og gerir lítið með lofandi efniviðinn annað en að reyna að kreista út aulahúmor (hliðarsaga um hálfgert framhjáhald einnar aukapersónu einstaklega kjánalegt innlegg) og tilraunir til að henda inn smá alvöru raunum sem aðalpersónurnar fást við (erfiðleikar með getnað, bræðrarígur) eru illa leystar og gerðar af hálfum hug. Þó er hægt að hafa lúmskt gaman af mörgum tilsvörum persónanna og mýmargar tilvísanir í skemmtanaiðnaðinn hitta stundum í mark.
Leikarahópurinn er út um allt en Jason Bateman (sem rýnir er hallur undir) fer létt með að leika svipaða týpu og hann hefur gert allt frá því að „Arrested Development“ var í gangi og Jesse Plemons („Fargo“, sería 2) er alger senuþjófur sem nágranni hjónanna sem þau reyna að forðast sökum sérvisku hans og galtóms persónuleika. Rachel McAdams er afskaplega einsleit og frekar þreytandi sem Annie, Billy Magnusson er ekkert nema einsleitur sem vitgranni meðlimur leikjafíklanna sem kemur alltaf með kjánaleg og tilgangslaus innlegg (þekkið þið týpuna?) og Kyle Chandler vinnur engan leiksigur sem hinn sjálfumglaði Brooks. En það er ansi gaman að sjá „Dexter“ sjálfan Michael C. Hall skjóta upp kollinum en rulla hans er frekar lítil.
Heilt yfir er „Game Night“ samt ekki alveg mislukkuð þar sem nokkur atriði eru ansi góð (flest þeirra samt í „trailernum“), myndin er hröð og gangurinn stöðugur en hægt hefði verið að gera miklu meira með efniviðinn. En hafa ber í huga að handrita- og leikstjórateymið, John Francis Daley og Jonathan Goldstein, eru þeir sömu og skiluðu frá sér hinni mislukkuðu „Vacation“ (2015) og það hefði átt að dempa vonir gagnrýnanda.
Sjónrænn stíll er þó frekar tilkomumikill en margar yfirlitsmyndir stilla umhverfinu upp eins og um leikjaspjald sé að ræða og það heppnast vel. Einnig er tónlistin góð og stemningsrík. Svo er „Game Night“ ekki alls varnað þar sem hún er góð áminning um að hóa í góða vini og skipuleggja gott leikjakvöld.