Reiðum okkur of mikið á áramótaskaupið

jón atliJón Atli Jónasson leikskáld og handritshöfundur heldur um næstu helgi námskeið í handritsskrifum sem heitir Frá hugmynd að handriti, en þetta er annað svona námskeiðið sem hann heldur í sumar.

Hvernig gekk síðasta námskeið?

„Síðasta námskeið gekk vel. Það var góð mæting og mikill áhugi. Þáttakendur eru flestir komnir á fullt með að skrifa sín eigin handrit, fólk á öllum aldri, sumir með einhverja reynslu en aðrir eru að stíga sín fyrstu skref. Þetta er fólk úr öllum áttum en svo er alltaf kjarni úr bransanum sem mætir og er að ná sér í meiri reynslu.“

Hafa einhver handrit sem skrifuð eru á námskeiðinu farið alla leið og orðið að mynd?

„Það er auðvitað mín von að þessi handrit sem fólk skrifar fari alla leið í framleiðslu og það er ótrúlega gaman að rekast á hæfileikaríka höfunda og lesa góð handrit. Það sem er svo gaman að sjá er hversu fjölbreytt handrit fólk er að skrifa. Ég held að á svona litlu landi eins og Íslandi komi góð handrit til með að lyfta allri kvikmyndagerðinni á hærra plan. Það þarf ekki annað en að líta til þess árangurs sem hefur náðst í danskri kvikmyndagerð þar sem mikill fókus var settur á að þróa handrit.“

Hvað finnst þér persónulega mest gaman af þegar kemur að skrifum?

„Persónulega finnst mér skemmtilegast að vinna í kvikmyndahandritum. Kvikmyndin er svo ótrúlega sterkur miðill og fjölbreyttur. En auðvitað hef ég líka unnið mikið í leikhúsum og það er líka krefjandi en á annan hátt. Þar er nálægðin við áhorfendur meiri og maður getur gert meira af tilraunum. Það er kannski það sem mig myndi langar til að sjá meira af í íslenskri kvikmyndagerð. Ódýrari myndir þar sem er meira lagt í að taka áhættu hvað varðar form og efnistök. Líka myndir og sjónvarpsþætti sem eru gerðar í meira samtali við líðandi stund og hræringar í þjóðfélaginu. Okkur hættir dálítið til þess að reiða okkur um of á áramótaskaupið eða heimildamyndir þegar kemur að umfjöllun um samfélagið.“

Áhugasamir geta sent Jóni fyrirspurnir á hugmyndoghandrit@gmail.com