Rappstríðið Drop the Mic verður sjónvarpssería

Bandaríska sjónvarpsstöðin TBS hefur pantað sérstaka sjónvarpsþáttaseríu sem byggð verður á Drop the Mic,  vinsælum innslögum úr The Late Late Show, spjallþætti breska spjallþáttastjórans James Corden.

Þættir Corden eru sýndir í Sjónvarpi Símans.

drop the mic corden

Stefnt er að frumsýningu á næsta ári, 2017, en TBS ætlar að láta gera 16 þætti af seríunni.

Corden sjálfur mun ekki koma fram í þáttunum, enda nóg að gera hjá honum væntanlega í Late Late Show, og tilkynnt verður um stjórnanda þáttarins síðar. Corden verður þó yfirframleiðandi þáttanna ásamt CBS félaga sínum Ben Winston, auk Jensen Carp.

Í Drop the Mic munu fjórir frægir einstaklingar keppa hver gegn öðrum í rappstríði. Sigurvegari hverrar viku verður valinn af áhorfendum í sal.

„Drop the Mic er svo spennandi þáttur, og við getum ekki beðið eftir að gera þá,“ sagði Winston. „Í hvert sinn sem við höfum haft þetta á dagskrá The Late Late Show, þá hefur innslagið farið á flug á netinu. Núna erum við með frábæran samstarfsaðila, TBS, og vonumst til að búa til gott og minnisstætt sjónvarp.“

Drop the Mic er nýjasta hliðarafurðin úr þætti Corden, Late Late Show. Annað innslag úr þáttunum, Carpool Karaoke, var nýlega keypt af Apple. Þá ætlar Spike TV að búa til svipað bíla-karaoke, Caraoke Showdown, sem gamanleikarinn Craig Robinson mun stjórna.

Corden seríurnar eru ekki fyrstu hliðarskref úr spjallþáttum – Spike TV hefur um skeið sýnt þættina Lip Sync Battle, sem upprunnir eru úr spjallþætti Jimmy Fallon, The Tonight Show.