Pixar staðfestir framhaldsmynd

Pixar staðfesti nýverið framhaldsmynd um neðansjávarlíf Nemo og félaga. Kvikmyndin mun heita Finding Dory og verður hún sýnd árið 2015.

Finding Dory mun fjalla um blaðurskjóðuna Dory sem fylgdi föður Nemo í leitinni miklu. Ellen DeGeneres léði Dory rödd sína í fyrri myndinni og er staðfest að hún muni endurtaka leikinn.

„Ég er svo spennt að þetta sé að gerast, ég las handritið og það er fyndið, fallegt og hefur í rauninni allt sem skilgreinir góða sögu.“ segir DeGeneres.

Leikstjórinn Andrew Stanton sem leikstýrði Finding Nemo segir að það sé engin Dory án DeGeneres og að hún hafi unnið hug og hjörtu almennings allstaðar að í heiminum og einnig hjá öllum hjá Pixar.

Einnig segir í tilkynningu frá Pixar að allar helstu persónurnar snúi aftur í Finding Dory og að myndin gerist einu ári eftir að Nemo týndist.

Finding Nemo vann Óskarsverðlaun árið 2004 fyrir bestu teiknimynd og halaði inn 922 milljónum Bandaríkjadala á heimsvísu.