Paranormal Activity 4 ekki ólíkleg

Enn bíðum við eftir þriðju Paranormal myndinni hér á klakann, en hún hefur þénað ansi vel úti í heimi og hefur m.a. grætt meira en báðar fyrri myndirnar. Það þarf auðvitað ekki meira til, en nú hefur yfirmaður innlendrar dreifingar hjá Paramount, Don Harris, staðfest að Paranormal Activity 4 sé svo sannarlega ofarlega í hugsunum höfuðpaura framleiðandans: „Ég get ekki séð fyrir mér að við munum ekki gera fjórðu myndina og ég er viss um að [forstjóri Paramount] Adam Goodman er að hugsa um áskorunina.“

Eftir að hafa séð velgengni Paranormal Activity 2 í fyrra, flýtti Paramount sér að setja saman þriðju myndina og sér Harris enga ástæðu afhverju það ætti ekki að endurtaka sig: „Ég er viss um að rétti leikstjórinn og rétti handritshöfundurinn verði að koma með fjármagninu, því þau eyða ekki mikið af peningum,“. Paranormal myndirnar eru orðnar að október-hefð hjá Paramount, ásamt því að hafa reynst vera með hagkvæmustu kvikmyndaseríum allra tíma, og megum við þá búast við fjórðu myndinni á þessum tíma á næsta ári.

Paranormal Activity myndirnar báðar eru í hálfgerðu uppáhaldi hjá mér og það verður spennandi að sjá þá þriðju. Það virðist hins vegar liggja í loftinu að ef að fjórða myndin verður gerð er það aðeins byrjunin að endinum og við gætum haft aðra Saw seríu í höndunum. Síðan er spurningin hvert sagan mun stefna; með aðeins litla vitneskju um sögu þriðju myndarinnar, get ég ekki sagt að ég hafi einhverja hugmynd um það hvað fjórða myndin gæti mögulega einblínt á.