Óborganlegur einræðisherra

Hann hefur kannski ekki alltaf gefið manni kómískar gullstangir, en mér finnst ákaflega skemmtilegt að setjast niður og horfa á Sacha Baron Cohen-grínmynd í fyrsta sinn, hvort sem hún er alfarið leikin eða blanda af sviðsettu rugli og raunverulegum skandal. Það skýst alltaf fyrirfram sama spurningin í hausinn á mér: „Hvað ætli þessi djarfi en jafnframt menningarlegi og ófyrirsjáanlegi rugludallur geri af sér að þessu sinni??“

The Dictator er ekkert að fara að breyta lífi þínu og hún málar heldur kunnuglega mynd á dæmigerðan striga, sem hefur pottþétt sést ferskari áður, en hún gerir það að minnsta kosti með skemmtilegum litum. Myndin er fljót að líða, ánægjulega móðgandi, ósmekkleg með stolti og hlaðin ýmsum skilaboðum sem skila sér í formi margra óborganlegra brandara, og sumir þeirra eru hrein snilld. En þrátt fyrir sameiginlegan leikstjóra er kannski ekki mjög sanngjarnt að bera hana saman við Borat og Brüno (þar sem hún er í hefðbundnum dúr en ekki gerviheimildarmynd), en hún nær hvort eð er ekki alveg hæðum þeirra. En hún er allavega betri, beittari og mun fyndnari heldur en Ali G Indahouse. Hún telst alveg með.

Það komast ekkert allir gamanleikarar upp með það að byggja heilu myndirnar sínar í kringum einhliða persónur sem eru öskrandi staðalímyndir. Cohen hefur alltaf önnur markmið í huga en að bregða sér í gervi einungis til þess að reyna að vera fyndinn og ætlast til þess að allir elski sig (af einhverjum ástæðum kemur Adam Sandler þarna upp í hugann). Nei, Cohen býr sjaldan til karaktera án þess að varpa í gegnum þá skýra samfélagsádeilu og leggja sig allan fram, og maður getur eiginlega ekki annað en dáðst að hugrekkinu hans. Hann er hér til að grípa tækifærin, sjokkera og móðga, en hann gerir það oftast eins og mikill fagmaður. Hvort sem þú dýrkar manninn eða ekki ertu eitthvað meidd/ur í kollinum ef þú segir ekki að hann sé einn sá metnaðarfyllsti í því sem hann gerir. Meira að segja í myndum eins og Sweeney Todd og Hugo stelur hann algjörlega senunni þar sem hann sekkur sér í hressa karaktera, og glittir þar í ekta leikhæfileika líka.

Eins og gildir um alla Cohen-karakteranna er einræðisherrann Aladeen á mörkum þess að þynnast út þegar maður horfir á hann of lengi, en þess vegna hjálpar að hafa góðan liðsauka til að deila skjánum með. Þar á meðal er hann sjálfur í þeirri grúppu, í hlutverki tvífara Aladeens með greind og persónuleika á við tebolla. Það hefði reyndar mátt finna eitthvað örlítið meira að gera fyrir Ben Kingsley og Önnu Faris, en á móti því kemur nokkur Jason Mantzoukas, sem er jafningi Cohens að nærri öllu leyti sem kjarnorkuvísindamaðurinn Nadal. John C. Reilly kemur einnig fram í tveimur atriðum og minnir furðulega mikið á Kanalúðann sem hann lék í Talladega Nights. „Pyntingarsenan“ með honum og Cohen er ansi frábær.

Í hvert sinn sem eitt atriði klikkar í The Dictator er sjaldan langt í annað sem er mun betra. Rennslið á myndinni er gott því hún er í styttri kantinum (82 mín.) og eyðir aldrei of miklum tíma í hverja gríntilraun. Það liðu sennilega aldrei meira en 10 mínútur á milli sprenghlægilegra atriða, eða þannig upplifði ég myndina og fannst það vel ásættanlegt. Það leiðinlega er bara hvað Cohen valdi fyrirsjáanlega og dæmigerða sögu til að nota sem stökkpall fyrir brandaranna. Söguþráður skiptir vissulega litlu máli í svona myndum, en sama hversu góð bestu atriðin eru finnst mér alltaf hundfúlt að fá svona sterka „been there, done that“ tilfinningu, enda er öll myndin týnd saman úr uppskriftarleifum. Ekki nóg með það að sögugrunnurinn styðjist við þessa dæmigerðu „fish out of water“ formúlu, heldur eru líka afgangar notaðir frá þessum týpísku sögum um ríkan fávita sem breytist í fátækling og reynir að komast aftur til valda, ásamt rútínubundinni rómantík. Sem betur fer er Cohen nógu meðvitaður um klisjurnar til að koma með örfáa útúrsnúninga af og til.

(Viti menn, það besta sem Megan Fox hefur gert síðustu árin er að bókstaflega hóra sig út í cameo hlutverki)

Skot á pólitík í raunheiminum, skot á menningarheima, skot á samkynhneigða, rasistahúmor og stöðugt grín á kostnað kvenna er sérhæfingin að þessu sinni hjá Cohen og Larry Charles, sem njóta þess alltaf að dansa í kringum línurnar og stökkva langt yfir þær. Aldrei er samt nuddað grófa efninu ofan í andlitið á manni of lengi, blessunarlega. Það eru þó allavega fjórar ástæður að lágmarki til að réttlæta hiklaust aðgangseyrinn hérna að mínu mati. Ein kemur fyrstu 10 mínútunum við, þegar húmorinn rúllar sem stöðugast. Síðan tengist önnur misskilningi í þyrlu (sem trailerarnir hafa því miður sýnt aðeins of mikið úr), sú þriðja nýuppgötvaðri sjálfsfróun og sú fjórða uppákomum í miðri barnsfæðingu – sem verður pottþétt litið á sem eina þekktustu senu myndarinnar. Svo er fullt af óvæntu rugli saltað út inn á milli og eftirá, og sem betur fer gleymir maður fljótt þvinguðu atriðunum. Oftast.

Aðdáendur Cohens þyrftu að vera í mjög slæmu skapi til að hafa ekki gaman af þessari nýjustu sköpun hans, og ætli tíminn muni ekki leiða það í ljós hvort hinn valdasjúki Aladeen eigi heima á sama stalli og gettórapparinn, túristaperrinn eða nítján ára tískuhomminn? Ég hef litlar efasemdir, því The Dictator kalla ég þrusufína blöndu af grófri, barnalegri smekkleysu og prýðilega snjöllu og léttgrilluðu satírugríni.


 (7/10)