Fín en bitlaus afþreying

Þetta var allt voða krúttlegt og saklaust fyrstu fimm eða sex skiptin, en nú er þetta farið að verða frekar óhugnanlegt. Þarna tala ég vitaskuld um vafasömu brómantíkina hjá Johnny Depp og Tim Burton, og ég er nokkuð viss um að leikstjórinn sé búinn að löglega ættleiða hann, nema hann sækist bara eftir afbrigðilegum trekanti án þess að segja það beint út. Ég fatta svosem vinnusambandið á milli hans og Helenu Bonham Carter. Þau kynntust, giftust og fjölguðu sér – og yfirleitt í heimi fræga fólksins er það ávísun á subbulega gott kynlíf ef kvikmyndagerðarmenn nota eiginkonurnar reglulega í bíómyndum sínum. Spyrjið bara Paul W.S. Anderson! Fyrir utan það að Carter virðist eðlilega eiga heima í öllum myndum mannsins síns, annað en dúkkan hans Andersons.

Dark Shadows er áttunda Depp/Burton samstarfið og sjöunda Burton/Carter vinnudúlleríið, en vissulega þarf þetta ekki að þýða neitt rosalega neikvætt. Augljóslega eru þetta miklir vinir en óneitanlega versnar ímynd Burtons örlítið í hvert sinn sem hann grípur Depp í hraðvalinu til að nýta hann sem skemmtikraft. Upp úr þessu mun manni líða eins og það sé einhver rígur á milli mannanna ef hann skiptir um aðalleikara. Mér finnst gaman að sjá fagmenn vinna saman oftar en einu sinni, en ég tel einnig nauðsynlegt að leikstjórar breyti aðeins til við og við. Depp er einstakur leikari, en hann á ekki heima í öllu sem furðufuglinn snertir. Hann gat varla sungið í Sweeney Todd og fékk alltof gjafmildan skjátíma í Alice in Wonderland. Kannski er ég enn bara með svona vondar minningar eftir Alice, en eftir þá mynd hefur aldrei verið auðveldara að taka skrefið upp hjá emó-kónginum.

Það er svona hálfpartinn hægt að kalla Dark Shadows flotta bíóútgáfu af sjónvarpsþáttum – eða sápuóperum reyndar – sem voru að vísu algjört rusl, sem segir að það þurfti ekki mikið til að virða hráefnið, en á sama tíma er þetta örlítil sóun á góðu tækifæri til að gera eitthvað mátulega brjálað og skuggalega fjörugt.

Frásögn myndarinnar er asnalega sundurtætt. Handritið eyðir fullmiklum tíma í hluti sem skipta minna máli og verða mikilvægu þættirnir oft alveg útundan. Persónan sem Depp leikur hirðir mestu athyglina en sem fullmótaður karakter er hann allur í molum og seinasta senan með honum er algjörlega óverðskulduð vegna þess að sagan sýndi engan áhuga á því að byggja almennilega upp það sem skipti þar mestu máli. Baksögur aukapersóna hefðu líka mátt tvinnast örlítið betur inn í handritið í stað þess að vera skóflaðar svona inn þegar löngu var kominn tími á þær.

Burton hefur aldrei verið góður að búa til bíómyndir sem kortleggja sögur sínar á snyrtilegan og úthugsaðan máta. Og þau fáeinu skipti þar sem það hefur gerst er ég viss um að það hafi verið fyrir slysni. Það sem hefur alltaf skipt Burton mestu máli er útlitið, andrúmsloftið og leikararnir, eða leikaraskreytingin öllu heldur. Og jú, yfirleitt er nauðsynlegt fyrir hann að sögurnar fjalli um einstaklinga sem endurspegla hans eigin persónuleika (s.s. öðruvísi, lokaðir og staddir í umhverfi eða heimi sem þeir passa ekki alveg inn í). Með Dark Shadows er Burton (aftur) búinn að snúa sér að „fish out of water“ formúlunni kunnuglegu. En sú formúla er oftast skotheldur stökkpallur til að byggja fullt af bröndurum í kringum þá einu hugmynd að lykilpersóna sögunnar kann ekkert á veröldina/tímabilið sem hún er stödd í. Þess vegna get ég auðveldlega lofað ykkur því að húmorinn er allt annað en fjölbreyttur, og miðað við óskipulögðu söguna er nokkuð ljóst að hún skilur mann eftir nokkuð áhrifalausan á mikilvægustu stöðum.

Þó kannski ein eða tvær hafa komist nálægt því þá hef ég aldrei séð Burton-mynd sem togar fast í mínar hjartarætur. Ekki að það komi endilega efninu við þá finnst mér Batman Returns og Ed Wood vera langbestu myndirnar hans, en ég hef líka laðast talsvert að myndunum sem taka sig ekki vitund alvarlega og sameina mjög abstrakt, „campy“ óhugnað við fríkaðan húmor. Þessar myndir þar sem Burton ákvað bara að skemmta sjálfum sér og vera ekki með neitt aukakjaftæði; t.d. Beetlejuice og Mars Attacks.

Fyrir utan pirrandi handritsgalla er aðalvandinn við Dark Shadows sá að hún nær ekki alveg að ákveða sig hvort hún vilji vera drungaleg dramasúpa með viðbættum húmor eða kolsvört kómedía með yfirnáttúrulegu flippi. Stundum stangast ólíku tónarnir svo mikið á að maður hefur ekki hugmynd um hvernig á að bregðast við ákveðnum atriðum (eins og þetta með hippana í skóginum). En þar sem markmið myndarinnar eru ekkert svo hátt sett tókst mér að hafa þokkalega gaman að henni… þangað til fór að líða að seinustu 20 mínútunum eða svo – þegar allur fjandinn verður loksins laus. Þá fer það að verða sorglega augljóst að Burton er ekki sami maðurinn í dag og hann var á níunda eða tíunda áratugnum og reynir þess vegna alltof mikið á sig á meðan hann er að farast úr óákveðni. Ég veit ekki einu sinni hvort seinustu kaflarnir hafi reynt að vera fyndnir, töff eða ógnvekjandi, en hvað sem reynt var, þá gekk það ekki neitt og dró mig alveg út úr sögunni. Lokasenan var sömuleiðis asnaleg og tilgangslaus, og það er alltaf jafnleiðinlegt að skilja við bíómynd á svoleiðis svekkjandi nótum. Ekki síst þegar flestar senurnar á undan eru svona nett slakar.

En já, myndin er hryllilega rotin á marga vegu en það er samt líka margt við hana sem ég var mjög ánægður með. Leikhópurinn er t.a.m. frábærlega samsettur, og hver og einn karakter fær svo sterk útlits- og hegðunareinkenni að manni tekst að muna eftir flestum leikurunum þótt þeir hafi lítið í höndunum. Best þar eru Johnny Lee Miller (gaur, hvar hefur þú eiginlega verið?!), Jackie Earle Haley og Chloe Moretz (allavega þangað til í endann. Jeminn!). Michelle Pfeiffer, Bella Heathcoate, Gulliver McGrath og Frú Burton eru einnig prýðisgóð og litrík. Eva Green er síðan alltaf í svolitlu uppáhaldi hjá mér. Hún fær ekki alltaf bestu línurnar í handritinu hér en hún er akkúrat það sem hún á að vera: reið, kynþokkafull (með epíska spenaskoru sem greinilega dugir til að gefa m.a.s. blóðsugum holdris), klikkuð, djöfulleg og ánægð með það. Hún og Depparinn ná ágætlega saman í sinni vitleysu.

Hann Johnny þarf samt að fara aðeins að draga sig í smápásu frá Burton, og ef ég væri læknirinn hans myndi ég skrifa lyfseðil upp á það að hætta að eltast við auðfengnu peningana í bili. Ég held nefnilega að hann eigi nóg að svo stöddu. Dark Shadows var reyndar hálfgert draumaverkefni fyrir hann út af því að hann er víst gamall aðdáandi þáttanna (sem ég skil ekki – þeir eru voða hallærislegir). Það þýðir að Depp sýnir hlutverkinu mikinn áhuga og lifir hann sig rosalega inn í það, eins og hann gerir nú oftast í Burton-myndum. Það er aldrei leiðinlegt að horfa á hann og ég fúslega játa að þessi maður kemur oft í veg fyrir að sömu djókarnir þreytast. Það kom mér einmitt mest á óvart að þessi einhæfi húmor hélt myndinni gangandi í dágóðan tíma, og ég held að ég muni seint sjá eins fyndna notkun á McDonalds-skiltinu, svo eitthvað sé nefnt.

Svo vitum við að sjálfsögðu öll að þetta er ekki hreinræktuð Burton-mynd ef Danny Elfman sér ekki um músíkina, nema tónlistin hans er langt frá því að vera eftirminnileg hér. Elfman þarf virkilega að sparka sér aftur í gang. Hann hefur ekki gert minnisstæða bíótónlist síðan 2005 og hér er hann gjörsamlega á sjálfsstýringu. Ég sé alveg fyrir mér að leikstjórinn hafi beðið hann um að gefa þessi ofur-hefðbundnu stef (semsagt eitthvað myrkt og múdí) bara til að fylla upp í þau atriði þar sem ’70s slagarar voru ekki notaðir. Ég ætla mér þó alls ekki að kvarta vegna þess að soundtrack-ið er alveg æðislegt. Það heldur fjörinu oftast gangandi, styrkir flæðið og jafnvel hinar aulalegustu senur.

Dark Shadows er stutt frá því að vera bitlaust miðjumoð en líka hættulega nálægt því að vera mynd sem ég gæti sakleysislega mælt með undir réttum kringumstæðum. Hún mun örugglega verða ein af gleymdari myndum leikstjórans þegar horft verður tilbaka á ferilinn hans eftir mörg ár, en ef maður horfir framhjá þessum gagnabanka af göllum er þetta nokkuð skemmtileg afþreying áður en allt fer í algjöra steik í lokakaflanum.


(6/10)

En…

… hvað á það að þýða að gefa Alice Cooper pláss í kreditlistanum í byrjuninni?? Þetta var ekkert nema bara þetta týpíska uppstækkaða gestahlutverkið. Ég giska að leikstjórinn hafi skuldað honum stóran greiða, eða gefið honum alla þessa athygli í skipti fyrir tækifæri til þess að leyfa Depp að gera vægt – og heldur fyrirsjáanlegt – grín að honum. Cameo-ið hans í Wayne’s World var hundrað sinnum betra.