Hasarmynd með alvöru pung!

Að horfa á The Raid er ekkert alltof ólíkt því að horfa á rosalega góða klámmynd; Þú gætir sumsé léttilega spólað yfir söguþráðinn og hent þér beint í atriðin sem koma þér í rétta gírinn og skipta myndinni mestu máli. Saman eða í sitthvoru lagi er haugur af senum sem trekkja upp hasarbónerinn með ljúffengum skothríðum og kjaftstoppandi slagsmálum, og hvort tveggja er með því harðasta og skemmtilegasta sem ég hef séð í mörg, mörg ár. Það er ekki af ástæðulausu að menn út um allan heim eru að líkja þessari mynd við aksjónsnilldina Hard Boiled. The Raid (sem hefur klisjukennda og tilgangslausa undirnafnið: Redemption) hefur sannað sig sem Hard Boiled þessarar kynslóðar.

Þetta er, jú, brilliant hasarmynd, en ekkert ofsalega góð bíómynd undir smásjánni. Hún er afar grunn, bæði efnislega og tilfinningalega og hefur ekkert í huga annað en að þræða saman seríu af ofbeldissenum til að einungis sýna hversu geðveikislega brjáluð og töff hún er. Ef svona hasarklám á að virka þá þurfa að vera vönduð vinnubrögð og mikil fjölbreytni í hamaganginum til þess að maður nenni að sitja út alla lengdina.  Þetta er samt nákvæmlega það sem gerir The Raid svona góða, því hún sprengir sig svo mikið út í kúlinu og fagmennsku að manni líður eins og emó-gella í hnífabúð.

Myndin er ekkert að flækja hlutina. Hún er fljót að henda sér í gang og sprettir í gegnum þessar 90 mínútur eins og stórmeistari. Hasarinn rennur stanslaust í gegn með fáeinum (en stuttum) pásum svo áhorfandinn geti náð betur andanum á milli sena. Í röngum höndum hefði þessi mynd getað orðið verr, t.d. með of hröðum klippingum, flogaveikri kvikmyndatöku eða einhæfari atriðum. Vissulega er oft hristingur á kamerunni en atriðin eru alltaf vel tekin upp og sér maður alltaf hvað er í gangi, sem því miður hefur ekki verið vaxandi kostur í undanförnum Hollywood-spennumyndum. Ég er heldur ekki frá því að þessi mynd hefði ekki verið síður kröftug ef engin tónlist væri í henni, en rafmagnaða score-ið setur þvílíkan takt í flottustu senurnar, og líka þær sem koma á milli.

Aðalpersónan í þessari mynd lætur John McClane líta út eins og hann sé meðvitundarlaus og úthaldið hans í bardögum er gjörsamlega hneykslandi. Hugsið ef Die Hard hefði riðið Ong Bak. Þá kæmi út þessi, eða svona rétt um bil. Hasarfíklar eiga eftir að éta sig sadda á þessum snargeðveika rússíbana sem ég get ekki annað en kallað skylduáhorf. Jafnvel þeir sem eru með fóbíu fyrir „útlenskum“ myndum munu missa neðri kjálkann á gólfið yfir fáeinum senum, sennilega vegna þess að ofbeldi er eins á öllum tungumálum. The Raid er á mörkum þess að þynnast á köflum en oftast þegar það gerist dettur hún beint í rólegu partana. Og þeir endast ekki beint lengi.


(8/10)