Nýtt í bíó – Predator

Spennu-geimverutryllirinn The Predator verður frumsýnd á föstudaginn kemur, þann 14. september í Smárabíói, Borgarbíói Akureyri, Sambíónum Egilshöll og Laugarásbíói.

Eins og segir í tilkynningu frá Senu, þar sem vitnað er í Brian Tallerico, Roger Ebert, þá er kvikmyndin The Predator  „skemmtileg og grimm bardagaræma sem eyðir litlum sem engum tíma áður en alvaran tekur við, ekki ólíkt aðalpersónu kvikmyndarinnar!“

Söguþráðurinn er eftirfarandi: Þegar ungur einhverfur drengur að nafni Rory, sem hefur einstaka hæfileika á tungumálasviði, opnar fyrir slysni leið fyrir hinar grimmu og blóðþyrstu geimverur sem við þekkjum sem „Rándýrin“ til að snúa aftur til jarðar hefst barátta upp á líf eða dauða því Rándýrin ætla sér að gera út af við mannkynið.

Leikstjórn: Shane Black

Helstu leikarar: Jacob Tremblay, Yvonne Strahovski, Sterling K. Brown, Olivia Munn, Lochlyn Munro, Thomas Jane, Boyd Holbrook, Edward James Olmos, Keegan-Michael Key, Jake Busey og Trevante Rhodes

Áhugaverðir punktar til gamans: 

-The Predator er fjórða myndin sem gerð er um samnefnd „Rándýr“ og geimskrímsli sem voru fyrst kynnt til sögunnar í mynd Johns McTiernan, Predator, árið 1987. Vinsældir hennar urðu miklar og gátu af sér framhaldsmyndirnar Predator 2 árið 1990 og síðan Predators árið 2010 auk þess sem tvær „spin off“-myndir voru
gerðar, Alien vs. Predator árið 2004 og framhald hennar, Alien vs. Predator: Requiem árið 2007. Í þetta sinn er það Shane Black sem leikstýrir og skrifar einnig handritið ásamt Fred Dekker, en Shane er sem leikstjóri þekktastur fyrir Kiss Kiss Bang Bang, Iron Man 3 og The Nice Guys, auk þess sem hann skrifaði handrit Lethal Weaponmyndanna
og bestu myndar Rennys Harlin, The Long Kiss Goodnight. 

-Þess má geta til gamans, ekki síst fyrir þá sem muna vel eftir fyrstu Predator-myndinni, að leikstjórinn Shane Black lék í henni málaliðann Hawkins sem varð illu heilli einn af þeim fyrstu sem féll fyrir geimskrímslinu, en það var einnig fyrsta kvikmyndahlutverk hans.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan og plakat þar fyrir neðan: