Nýtt í bíó – Rough Night

Gamanmyndin Rough Night verður frumsýnd á miðvikudaginn næsta, þann 14. júní,  í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói, Akureyri.

Í myndinni koma fimm vinkonur úr háskólanum aftur saman eftir 10 ára aðskilnað í tilefni af gæsun einnar þeirra í Miami. Þær djamma fram á rauða nótt en gamanið kárnar þegar þær myrða óvart karlstrippara. Klikkunin færist í aukana þegar líður á kvöldið og þær reyna að átta sig á hvað eigi til bragðs að taka.

Áhugaverðir punktar til gamans: 

-Stærsti hluti myndarinnar er tekinn upp við Lönguströnd (Long Beach) í Kaliforníu nema bar- og bæjaratriðin sem eru tekin upp á Hermosa-ströndinni, norðvestur af Lönguströnd.

-Þeir sem þekkja vel til svartra bandarískra kómedía kannast áreiðanlega við þemað í Rough Night, en segja má að hún sæki grunnsöguna í myndirnar Very Bad Things, Stag og jafnvel í myndina Weekend at Bernie’s, sem var ein af aðalgrínmyndum ársins 1989.

-Rough Night er fyrsta bíómynd Luciu Aniello, sem bæði leikstýrir, framleiðir og skrifar handritið. Lucia er samt enginn nýgræðingur í kvikmyndagerð og á meðal fyrri verka hennar má nefna þriggja þátta sjónvarpsseríuna Time Traveling Bong sem mörgum þótti afar góð og frumleg. Lucia er nú að skrifa sína næstu mynd sem verður
afbrigði af 21 Jump Street, en með konum í aðalhlutverkunum.

Leikstjórn: Lucia Aniello
Leikarar: Jillian Bell, Ilana Glazer, Scarlett Johansson, Kate McKinnon, Zoë Kravitz, Demi Moore og Ty Burrell.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan og plakat þar fyrir neðan: