Nýbylgja í paradís

Frönsk kvikmyndanýbylgja sjötta og sjöunda áratugs síðustu aldar mun ráða ríkjum í Bíó paradís við Hverfisgötu um helgina, en þá munu myndir eftir meistara nýbylgjunnar, manna eins og Jean Luc Godard, Agnes Varda og Claude Chabrol, verða sýndar.
Í fréttatilkynningu frá bíóinu segir að bergmál þessa miklahvells sem nýbylgjan var, vari enn.

„Á laugardag hefst dagskrá með völdum myndum úr hinni frægu frönsku nýbylgju sjötta og sjöunda áratugsins. Bergmálið af þeim kvikmyndasögulega miklahvelli hljómar enn; í kvikmyndum samtímans, í hverskyns myndmáli sem við meðtökum, í viðmiðum sem við notum.
Á þessu tímabili, sem með góðum vilja má teygja allt aftur til upphafs sjötta áratugsins og fram til miðbiks þess áttunda, er kvikmyndin að taka út þroska sinn sem listgrein. Þetta er umbreytingaskeið, þar sem viðhorf til miðilsins eru í mikilli gerjun og margt hæfileikafólk nær að vinna úr því sem á undan er gengið, koma fram með andsvör og þarafleiðandi þróun, breytingar.
Við sýnum myndirnar sem hleyptu frönsku nýbylgjunni af stað; 400 högg (Les quatre cents coups, 1959) eftir Francois Truffaut og Andköf (A bout de souffle, 1960) eftir Jean-Luc Godard, en einnig tvær myndir kollega þeirra frá svipuðum tíma; Cleo frá 5 til 7 (Cléo de 5 à 7, 1962) eftir Agnes Varda og Kátu stúlkurnar (Les bonnes femmes, 1960) eftir Claude Chabrol, sem lést á dögunum. Dagskráin Gullmolar frönsku nýbylgjunnar er helguð minningu hans,“ segir í tilkynningu Bíós paradísar.

Íslenskar myndir

Um helgina halda einnig áfram sýningar á íslenskum myndum sem verið hafa í sýningu, þar á meðal Backyard, tónleikamynd Árna Sveinssonar, sem fengið hefur feykilega góð viðbrögð.“ Einnig munum við sýna áfram Reykjavíkurmyndirnar 79 af stöðinni, Rokk í Reykjavík og 101 Reykjavík ásamt heimildamyndunum Öskudagur (1975) eftir Þorstein Jónsson, Kjötborg (2008) eftir Helgu Rakel Rafnsdóttur og Huldu Rós Guðnadóttur og Íslensk alþýða (2009) eftir Þórunni Hafstað, allt afar forvitnilegar myndir.“

Í tilkynningu bíósins segir að um helgar verði gjarnan sýndar stuttmyndir og svo verður einnig um þessa helgi, þannig að það er greinilega líf og fjör við Hverfisgötuna þessa dagana: „Bíó Paradís vill skapa reglulegan vettvang fyrir stuttmyndir, bæði íslenskar og erlendar. Ákveðið hefur verið að sýna stuttmyndir um helgar, kl. 15:30 á laugardögum og sunnudögum. Fimm nýjar íslenskar stuttmyndir ríða á vaðið, fjórar þeirra voru verðlaunaðar á Stuttmyndadögum í Reykjavík nú í vor og sú fimmta er splunkuný. Myndirnar eru: Áttu vatn eftir Harald Sigurjónsson (hlaut 1. verðlaun Stuttmyndadaga), Sykurmoli eftir Söru Gunnarsdóttur (2. verðlaun), Þyngdarafl eftir Loga Hilmarsson (3. verðlaun), Ofurkrúttið eftir Jónatan Arnar Örlyggson og Grím Jón Björnsson (áhorfendaverðlaun) og sú nýjasta, Crew eftir Harald Sigurjónsson. Samanlagður sýningartími er um 75 mínútur.“