Ný stikla: The Raven

Fyrsta stiklan fyrir nýjustu mynd John Cusack, The Raven, var gefin út í dag. Í henni fer Cusack með hlutverki skáldsins fræga, Edgar Allan Poe, í skálduðum kafla lífs hans. Poe er fenginn til að hjálpa lögreglunni við að stöðva raðmorðingja sem hermir eftir sögum hans og í kjölfarið byrjar morðinginn að ögra skáldinu. Titill myndarinnar er tekinn frá frægu ljóði eftir höfundinn og fjallar í grófum dráttum um mann sem er að missa vitið; hvort að meira en titillinn eigi við myndina verður áhugavert að sjá, en hún er væntanleg snemma á næsta ári.

Leikstjórinn er James McTeigue, sem leikstýrði hinni frábæru V for Vendetta og nýlega Ninja Assassin. Handritið er skrifað af Ben Livingston, sem er að skrifa hér í fyrsta skiptið handrit, og Hannah Shakespeare, sem hefur unnið að mismunandi þáttum í gegnum árin. Ásamt John Cusack mun Luke Evans fara með hlutverki rannsóknarlögreglumanns frá Baltimore og Brendan Gleeson leikur ofursta.