No Time to Die færð til næsta árs

Framleiðendur nýju kvikmyndarinnar um James Bond hafa ákveðið að fresta útgáfunni til næsta árs vegna útbreiðslu kórónaveirunnar, en áætlað var að frumsýna myndina næstkomandi nóvember, þar áður í vor.

Að öllu óbreyttu má nú búast við njósnaranum þann 2. apríl 2021. 

Þessar vendingar koma sjálfsagt fáum á óvart, enda er einnig búið að fresta stórmyndunum Black Widow og Wonder Woman 1984 til næsta árs.

No Time to Die er 25. kvikmyndin í myndabálknum stórfræga og hefur Daniel Craig tilkynnt að þetta verði hans síðasta mynd í hlutverki njósnara hennar hátignar. 

Í vikunni var gefið út myndband fyrir titillag myndarinnar í flutningi Billie Eilish og má sjá það að neðan.