Nathan Fillion verður grískur guð

Nördavinurinn Nathan Fillion hefur verið ráðinn í hlutverk Hermesar í framhaldsmyndinni Percy Jackson & the Olympians: The Sea of Monsters. Já, fyrir þá sem ekki vissu, það er sem sagt verið að gera Percy Jackson framhald. Af hverju, veit ég ekki.

Myndin mun sem fyrr fylgja ævintýrum sonar Póseidons, Percy Jacksons, en í þetta skipti þarf hann að fara að eyjunni Cyclops til að freista þess að finna Gyllta Ryfið. Logan Lerman, Brandon T. Jackson, Jake Abel og Alexandra Daddario snúa aftur í aðalhlutverkum myndarinnar, en ásamt Fillion hafa bæst í hópinn gamanleikonurnar Missi Pyle (The Artist), Yvette Nicole Brown (Community), og Mary Birdsong (Reno: 911!) sem munu fara með hlutverk örlaganornanna þriggja. Thor Freudenthal (Diary of a Whimpy Kid) leikstýrir, en Chris Columbus færir sig í framleiðandastólinn. Hvort að fjandvinirnir Sean Bean og Pierce Brosnan snúa aftur í goðaham sinn er ekki komið í ljós.

Satt að segja hafði ég nú lítið álit á fyrri Percy Jackson myndinni (dottaði reyndar aðeins yfir seinni helmingnum) og hef nú ekki miklar væntingar fyrir næstu mynd heldur. Af hverju er ég þá að skrifa þessa frétt?

Nathan Fillion er frábær! Stórkostlega vannýttur leikari sem gerir allt sem hann tekur þátt í aðeins betra. Á meðan að ég fæ ekki meira af Firefly eða Serenity 2 (nú eða kappann í Uncharted myndinni) þá verður þetta bara að duga. Tala nú ekki um hvað hann getur gert við hlutverkúr grískri goðafræði…

Annars einhver sem býður spenntur eftir frekari ævintýrum Jacksons í goðheimum? Hefur kannski einhver lesið þessar bækur? Eru þær miklu betri en myndin?