Íslensk fantasía verður fyrsta samstarfsverkefnið

Þríleikurinn Saga eftirlifenda, margbrotin saga eftir einn helsta fantasíuhöfund Íslands, Emil Hjörvar Petersen, verður fyrsta samstarfsverkefni Skybond Galactic, kvikmynda- og sjónvarpsdeildar Skybound Entertainment, og Sagafilm. Um er að ræða leikna sjónvarpsþætti byggða á bókunum.

Skybound Galactir hefur samkvæmt tilkynningu frá Sagafilm framleitt risastór verkefni á borð við The Walking Dead, Invincible og Impact Winter. Fyrirtækið festi kaup á Sagafilm í ágúst á þessu ári.

Saga eftirlifenda, sem ber nú einnig enska heitið Survivors of Ragnarök, kom fyrst út á árunum 2010-2014 og vakti mikla athygli samkvæmt tilkynningunni. Sagan er sögð brautryðjendaverk sem hratt af stað bylgju fantasía á íslensku. Söguhetjurnar eru hinir minni æsir sem lifðu af Ragnarök, t.a.m. Höður, Baldur og Móði, sem eiga í átökum og leggja í svaðilfarir í heimi sem þeir misstu tökin á. „Saga eftirlifendanna hafði aldrei verið sögð, en Emil Hjörvar reið á vaðið með mögnuðum hætti og Skybound og Sagafilm eru nú afar spennt í að deila sögunni með heiminum,“ segir í tilkynningunni.

Óteljandi möguleikar fyrir aðlaganir

Saga eftirlifenda / Survivors of Ragnarök segir frá breyskum bræðrum ‒ sonum Óðins og Þórs ‒ sem bera byrði heimsins á herðum sér, en sagan ber einnig með sér fjölskrúðugt persónugallerí og spannar langt tímabil, aðra heimshluta og menningu. Söguþræðirnir eru auk þess uppfullir af óvæntum snúningum, spennu og átökum. Þríleikurinn er því ekki aðeins kjörinn fyrir sjónvarpsþætti, heldur smellpassar hann líka við verkefnasýn Skybound Entertainment, „Wheel of Awesome“, sem hefur það að markmiði að færa sögur á margskonar form, t.a.m. sjónvarp, tölvuleiki, myndasögur, bækur og spil.

„Það gleður okkur að opinbera fyrsta samstarfsverkefni okkar og Skybound eftir að við gengum til liðs við Skybound fjölskylduna. Gríðarlegur fjöldi fólks um allan heim hefur áhuga á norrænni goðafræði og skáldsögur Emils um eftirlifendur Ragnaraka passa fullkomlega við það sem við gerum best,“ segir Kjartan Þór Þórðarson, yfirframleiðandi og hluthafi Sagafilm í tilkynningunni.

„Við hlökkum til að vinna að þróun á þessari nútímalegu nálgun á goðafræðina okkar og gera þríleikinn að alþjóðlegri seríu,“ bætir hann við.

Draumur að veruleika

„Þetta er auðvitað draumur að verða að veruleika og ég er hæstánægður með að Skybound og Sagafilm hafi keypt sjónvarpsþátta- og útgáfuréttinn. Þau vinna náið með höfundum og hafa mikinn skilning á þeirri sýn sem liggur að baki sögum. Skybound er líka snilldarfyrirtæki. Eftirlifendurnir eru í mjög góðum höndum,“ segir Emil Hjörvar Petersen í tilkynningunni.

Þáttaröðin verður þróuð með áhorfendur á Norðurlöndunum í huga og Emil verður einn af handritshöfundunum. Upplýsingar um leikaraval munu birtast síðar.