Aðdáandi Drakúla frá unga aldri

Eins og kvikmyndaunnendur hafa vafalaust tekið eftir er árið sem nú er að líða, 2023, risastórt fyrir leikarann svipmikla David Dastmalchin.  Þessi afkastamikli leikari hefur nú þegar komið við sögu í Ant-Man and the Wasp: Quantumania, Boston Strangler, The Boogeyman og Oppenheimer, auk þess sem Late Night with the Devil er væntanleg fyrir árslok.

En myndirnar eru ekki allar upptaldar því Dastmalchin leikur stórt hlutverk í vampírumyndinni The Last Voyage of the Demeter sem komin er í bíó hér á Íslandi.

Last Voyage of the Demeter (2023)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.1

Myndin er byggð á einum kafla, The Captain´s Log, úr sígildri sögu Bram Stoker frá 1897, Dracula. Sagan gerist um borð í rússnesku skonnortunni Demeter sem var notuð til að flytja leynilegan farm - tuttugu og fjóra ómerkta viðarkassa - frá Carpathia til Lundúna. Skrýtnir atburðir ...

Dastmalchian fer í myndinni með hlutverk Wojchek, hins yfirvegaða fyrsta stýrimanns hins staðfasta skipstjóra sem Liam Cunningham leikur.

Þegar siglt er úr höfn á leið til Lundúna uppgötva skipverjar sér til mikils hryllings að þegar kvölda tekur fer skuggavera á stjá sem ræðst á meðlimi áhafnarinnar.

Spennan vex smátt og smátt upp frá því og áhöfnin fer að berjast innbyrðist þegar skipverjar snúast gegn hverjum öðrum. Ofsóknaræðið vex og vex. Að lokum komast þeir að því hvað er í raun í gangi: Sjálfur skuggaprinsinn Drakúla er í viðarkistu um borð og fer á kreik á kvöldin til að fá sér í gogginn.

Dastmalchian segir í samtali við slashfilm.com að sér hafi lengi langað til að vera með í myndinni.

Spurður um hreiminn sem hann notar í kvikmyndinni segir leikarinn, sem hefur notað ýmsa hreima í ólíkum hlutverkum í gegnum tíðina: „Ég hef verið aðdáandi bókarinnar um Drakúla síðan ég var ungur, síðan ég las hana fyrst, og ég var alltaf heillaður af kaflanum um dagbók skipstjórans (e. Captain´s Log) og ferðalag Demeter skipsins. Ég hafði alltaf áhuga á að taka þátt í að færa þessa sögu upp á hvíta tjaldið. Ég hugsaði „ég ætti að skrifa handrit upp úr þessu“. Og þegar ég byrjaði að tala um það, sagði einhver á einhverjum tímapunkti, „Þú veist að það er verið að gera kvikmynd eftir sögunni.“

Skrifaði bréf

Ég komst þá að því að framleiðslufyrirtækin Universal og Amblin og leikstjórinn André Øvredal væru með myndina í smíðum. Ég hafði þá samband og hugsaði, hvernig ætli ég geti verið með? Ég skrifaði innblásið bréf, hafði samband við ráðningarstjórann, Nina Gould, en þau sögðu, „Það er eiginlega ekkert þarna fyrir þig.“ Ég hugsaði, „Það hlýtur að vera að minnsta kosti eitt vampíruhlutverk handa mér.“ Og þau sögðu. „Nei, það er ekki neitt.“

Nokkrum vikum síðar höfðu þau samband aftur og sögðu; „Sko, það er ein persóna, hann er fyrsti stýrimaður skipsins. Hann heitir Wojchek“.

Ræddi við Pólverja

Wojchek er reyndar heiti á uppáhaldsleikriti mínu eftir Georg Büchner. Og ég sagði, ég er með! Ég las handritið sem var ítarlegt. Persónan leit út, hreyfði sig og hagaði sér mjög ólíkt öllu sem ég hafði gert áður og ég sá hlutverkið því sem frábæra áskorun.

Ég ræddi við vin minn sem er mikill tungumálasérfræðingur og sagði: „Þekkirðu einhvern pólskumælandi sem gæti hjálpað til við hreiminn?“  Hann tengdi mig við frábæran aðila, listamann sem heitir Marcel, sem býr í Krakow í Póllandi og við ræddumst við á Zoom. Það hjálpaði mikið til við áheyrnarprufurnar,“ segir leikarinn og bætir við að hann hafi  lagt gríðarlega mikið á sig til viðbótar til að hreppa hlutverkið. „Ég vona að fólk sem sér myndina upplifi að þarna sé á ferð pólskur sjómaður frá 1897.“