Ambulance uppfyllti þarfir Bay

Á morgun verður nýjasta afurð stórmyndaleikstjórans Michael Bay frumsýnd, Ambulance með Jake Gyllenhaal og Abdul-Mateen II í hlutverki bræðra sem ræna sjúkrabíl.

Bay, sem á að baki þekktar myndir eins og Transformers seríuna, The Rock, Armageddon og Pearl Harbour, þurfti að sætta sig við miklar truflanir á vinnu sinni vegna faraldursins, en mynd hans Black Five var sett á ís vegna hans.

Will Sharp (Yahya Abdul-Mateen II) og Danny Sharp (Jake Gyllenhaal) í Ambulance.

„Það var erfitt að vera skapandi á þessum tíma,“ segir Bay í samtali við vefsíðuna The National News. „Allir voru svo hræddir.“

Myndir Bay, 57 ára,  sem hóf ferilinn í auglýsingum og tónlistarmyndböndum og gerði svo fyrstu kvikmyndina, Bad Boys með Will Smith og Martin Lawrence, hafa samtals halað inn 6,5 milljörðum Bandaríkjadala um allan heim.

„Ég gæti alveg sest í helgan stein. En þetta er svo gaman. Ég elska að taka kvikmyndir. Ég hef reglulega gaman að því.“

Nennti ekki að vera heima

En fyrst að hann gat ekki gert Black Five sneri hann sér að samstarfsmönnum sínum og sagðist endilega vilja gera eitthvað í hvelli. „Ég nenni ekki að vera fastur heima.“

Einhver minnti hann þá á handrit að mynd sem byggðist á danskri kvikmynd frá árinu 2005 sem kallaðist Ambulance, sem hægt væri að mynda bæði ódýrt og með hraði.

„Það uppfyllti þarfir mínar,“ sagði Bay.

Opinber söguþráður er á þessa leið: Hermanninum fyrrverandi Will Sharp vantar sárlega fé til að greiða sjúkrakostnað eiginkonunnar. Hann leitar hjálpar hjá eina manninum sem hann veit að hann ætti ekki að leita til, ættleiddum bróður sínum Danny. Danny er atvinnuglæpamaður og býður Sharp upp á valkost, að taka þátt í stærsta bankaráni allra tíma í Los Angeles, þar sem stela á 32 milljónum Bandaríkjadala. Will er í klemmu vegna veikinda eiginkonunnar og getur ekki sagt nei. En þegar flóttinn fer illilega úrskeiðis, þá ræna bræðurnir sjúkrabíl með særðri löggu og bráðaliða innanborðs. Nú fer í hönd æsispennandi eltingarleikur um alla borg. …

„Þeir áttu pabba sem var bankaræningi og var ansi harður í horn að taka,“ útskýrir Bay. „Einn bróðirinn fer beinu og breiðu leiðina, en hinn fetar myrkari slóðir.“

Konur elska myndina

Leikstjórinn segir að konur elski myndina. Það sýni viðtökur á forsýningum Ambulance.

Eftir er að sjá hvort það skili sér alla leið í aðsókn í kvikmyndahúsum. 

Flestir ættu að þekkja Gyllenhaal en Abdul-Mateen ll er ekki eins þekktur. Hann lék aðalhlutverk í hrollvekjunni Candyman á síðasta ári og lék einnig stórt hlutverk í The Matrix Resurrections.

Bay sá hann fyrst í Aquaman frá 2018 og heillaðist samstundis. „Ég sagði, þessi á eftir að verða stjarna. Ég vildi vinna með honum. Ég hef unnið með svo mörgum þekktum leikurum í gegnum tíðina og ég sagði við hann; „gaur, þú ert svo hógvær. En þú hefur einhvern neista. Ekki tapa því.“  Hann er mjög hógvær náungi. Salt jarðar.“

Bay segir að Gyllenhaal sé einnig í fantaformi í myndinni og gefi allt sitt í verkefnið.

Þrátt fyrir risastórar myndir er Bay mjög hagsýnn maður að eðlisfari. „Ég fer aldrei yfir kostnaðaráætlun. Og ég vil ekki eyða meiru en ég þarf. Það getur verið svo mikil peningasóun í stórmyndum. Þú ert að skapa svo stóran heim og ert með svo marga í vinnu.“