Drax úr Guardians of the Galaxy ráðinn í Dune

Guardians of the Galaxy leikarinn, fyrrum fjölbragðaglímumeistarinn og vöðvabúntið Dave Bautista hefur verið ráðinn í endurræsingu vísindaskáldsögunnar Dune frá árinu 1984. Með aðalhlutverkið í myndinni mun Timothee Chalamet fara með, að því er heimildir kvikmyndaritsins Variety herma.

Arrival leikstjórinn Denis Villeneuve mun leikstýra, en við sögðum fyrst frá málinu hér á kvikmyndir.is árið 2016.

Villeneuve mun einnig skrifa handritið, í félagi við Eric Roth og Jon Spaiths. Rebecca Ferguson er einnig í leikhópnum.

Framleiðandi myndarinnar er framleiðslufyrirtækið Legendary, en fyrirtækið náði samningi um kvikmyndarétt á þessari frægu skáldsögu Frank Herbert árið 2016.

Sagan gerist í fjarlægu stjörnukerfi í framtíðinni, nánar tiltekið árið 10.191. Arrakis er eyðipláneta og eina uppspretta Melange, sem er mikilvægt lyf notað af the Guild Navigators til að ferðast á milli stjörnukerfa. Tvær fjölskyldur sem eiga í samkeppni, the Atreides og the Harkonnens, berjast um yfirráð yfir námuvinnslu á Melange á Arrakis. Þegar faðirinn Duke Leto Atreides er ráðinn af dögum af hinum illa barón Harkonnen, þá flýja sonur Leto, Paul, og móðir Paul, Lady Jessica, lengst inn í eyðimörkina og kynnast þar Fremen, sem eru innfæddir íbúar Arrakis. Vegna áhrifa Melange, þá kemst Paul að því að hann býr yfir ofurkröftum og getur séð inn í framtíðina. Paul sameinar Freman fólkið, býr til herflokk og leiðir hann í bardaga gegn barón Harkonnen og hinum spillta keisara Padishah Shaddam IV, sem er í bandalagi með Harkonnen fjölskyldunni. Hann er ákveðinn í að hefna föður síns og frelsa Arrakis og íbúa hennar frá keisaranum og uppfylla örlög sín…

Með ráðningu Bautista hittast hann og Villeneuve á ný, en þeir unnu síðast saman að Blade Runner 2049.

Bautista hefur annars nóg af verkefnum framundan. Þar á meðal er gamanmyndin Stuber, og spennugrínið My Spy, auk Avengers: End Game, þar sem hann fer enn á ný með hlutverk Drax.

Síðast sáum við leikarann leika á móti Sylvester Stallone í Escape Plan 2: Hades og í Avengers: Infinity War.