Jumanji tekur framúr Star Wars

Ævintýramyndin Jumanji: Welcome to the Jungle trónir á toppi listans yfir aðsóknarmestu myndirnar í kvikmyndahúsum landsins. Myndin tekur þar með framúr Star Wars: The Last Jedi sem var sú aðsóknarmesta þrjár vikur í röð. Alls sáu rúmlega 3.500 landsmenn Dwayne Johnson og félaga yfir helgina og hafa um 18.600 manns séð myndina í kvikmyndahúsum hér á landi frá frumsýningu.

Í myndinni finna fjórir miðskólanemar gamlan tölvuleik og dragast inn í leikinn sem er með frumskógarþema, og breytast í þær persónur í leiknum sem þau vilja. Þau komast hinsvegar að því að þau eru ekki bara að spila leikinn – þau verða að lifa hann af. Með önnur aðalhlutverk fara Kevin Hart, Jack Black og Karen Gillan.

Eins og fyrr segir þá situr The Last Jedi í öðru sæti listans en alls hafa í kringum 57.000 manns skellt sér á myndina víðsvegar um landið síðan hún var frumsýnd þann 15. desember. Í myndinni heldur Rey á vit ævintýranna ásamt Luke Skywalker, Leiu prinsessu og hinum dyggu Poe og Finn þar sem þau eiga eftir að uppgötva leyndardóm kraftsins og fortíð sem var þeim hulin. Með helstu hlutverk fara Daisy Ridley, Oscar Isaac, Gwendoline Christie, John Boyega, Carrie Fisher, Adam Driver og Mark Hamill.

Eins og margoft áður þá situr teiknimynd í toppsætum listans. Að þessu sinni er það myndin Ferdinand sem var m.a. tilnefnd til Golden Globe-verðlauna. Allt frá því að nautið Ferdinand var kálfur hefur hann verið ólíkur öðrum nautum. Á meðan aðrir kálfar vildu helst stangast á og létu sig dreyma um að komast í nautaatshringinn í Madrid hafði Ferdinand mun meiri áhuga á að njóta náttúrunnar, blómanna og litanna sem umhverfi hans býður upp á, auk þess sem hann getur ekki hugsað sér að gera flugu mein. En örlögin haga því samt svo að Ferdinand er fyrir misskilning sendur til Madridar til að berjast.