Drekar á toppnum

drekarFramhaldsmyndin How to Train Your Dragon 2 trónir á toppi vinsældalista helgarinnar yfir aðsóknarmestu kvikmyndirnar í kvikmyndahúsum landsins. Fyrsta myndin sló í gegn þegar hún var frumsýnd árið 2010, en Dean Deblois hefur leikstýrt báðum myndunum.

Myndin gerist um fimm árum eftir að þeir Hiksti og Tannlaus sameinuðu víkingana og drekana svo úr varð órjúfanlegur vinskapur á milli þeirra. Nú skemmta þau Ástríður, Hornasi og öll hin sér daglangt í drekakappflugi, nýjasta æðinu á litlu eyjunni Birkey þar sem víkingarnir eiga heima, á meðan Hiksti og Tannlaus hafa mest gaman af því að fljúga um ókunnar lendur og skoða ný svæði. Í einum slíkum leiðangrinum finna þeir félagar íshelli þar sem hundruð villtra dreka eiga heima. En ævintýrið verður alvarlegt þegar nýr óvinur skýtur upp kollinum sem ógnar tilveru bæði dreka og manna.

Rétt á eftir drekunum kemur gamanmyndin Tammy, en hún er nýjasta mynd gríndrottningarinnar Melissu McCarthy, sem síðast gerði það gott í myndinni Heat ásamt Söndru Bullock en er einnig þekkt fyrir grínmyndirnar Identity Thief og Bridesmaids auk þess að leika í gamanþáttunum Mike & Molly. Hér spreytir hún sig á handritsgerð í fyrsta skipti, en það skrifaði hún ásamt eiginmanni sínum Ben Falcone sem jafnframt leikstýrir hér sinni fyrstu mynd. Það má því segja að Tammy sé sannkallað hjónaverkefni.

Hryllingsmyndin Deliver us from Evil situr svo í þriðja sæti, en hún fjallar um lögreglumann sem rannsakar röð óútskýranlegra og dularfullra glæpa. Hann fær prest sem kann að framkvæma andasæringar í lið með sér til að berjast við óhugnanleg og djöfulleg öfl sem herja á New York borg.

Screen Shot 2014-07-14 at 1.55.15 PM