Jodie Foster gengin út

Þessir molar birtust fyrst í Myndum mánaðarins:

Peter Jackson hefur ákveðið að skipta um heiti á þriðja hluta myndarinnar um Hobbitann. Hann heitir núna The Battle of the Five Armies í stað There and Back Again.

THE HOBBIT: AN UNEXPECTED JOURNEY

Tökur eru nú á fullu á nýjustu mynd Joes Wright, Pan, sem fjallar eins og heitið bendir til um Pétur Pan, en Joe á eins og kunnugt er að baki myndirnar Atonement, Pride and Prejudice, Hanna og nú síðast Anna Karenina.

Viðtökur áhorfenda á myndinni The Other Woman, sem frumsýnd var í Bandaríkjunum 25. apríl, hafa verið afar góðar og þeir sem hafa skrifað um myndina, t.d. á Imdb.com, segja margir hverjir að þetta sé einhver fyndnasta mynd sem þeir hafi séð.

Handritshöfundurinn David S. Goyer hefur tilkynnt að hann hafi bætt inn í handrit sitt að myndinni Batman vs Superman karakternum Victor Stone, öðru nafni Cyborg, og að þegar sé búið að ráða leikarann Ray Fisher til að fara með hlutverk hans.
Batman vs Superman verður frumsýnd sumarið 2016.

Þeir Mel Gibson og Erin Moriarty munu fara með aðalhlutverkin í þrillernum Blood Father sem skrifuð er af Peter Craig, handritshöfundi myndarinnar The Town. Peter er reyndar með tvö önnur handrit í smíðum, Bad Boys 3 og Top Gun 2.

How-I-Spent-My-Summer-Vacation-Mel-Gibson

Og talandi um Mel Gibson, þá sjáum við hann næst í The Expendables 3 sem frumsýnd verður í ágúst, en handrit myndarinnar er skrifað af hjónunum Creighton Rothenberger og Katrínu Benediktsdóttur sem skrifuðu síðast Olympus Has Fallen.

Meira um The Expendables því þeir Harrison Ford, Wesley Snipes og Antonio Banderas verða með í næstu mynd auk þess sem þegar er farið að huga að fjórðu myndinni þar sem til stendur að bjóða þeim Pierce Brosnan og Steven Seagal með í fjörið.

Cannes-kvikmyndahátíðin verður haldin frá 14. til 25. maí og eins og alltaf verður boðið upp á mikið úrval forvitnilegra mynda, þ. á m. nýjar myndir eftir Ken Loach, Mike Leigh, Atom Egoyan, Jean-Luc Godard, Tommy Lee Jones og fleiri og fleiri, en opnunarmyndin að þessu sinni er Grace of Monaco eftir Olivier Dahan. Til að sjá dagskrána eins og hún leggur sig og fylgjast með í beinni geta áhugasamir t.d. farið inn á heimasíðu hátíðarinnar sem finna má á http://festival-cannes.com.

Jodie Foster er gengin út því hún gekk í eina sæng með sinni heittelskuðu Alexöndru Hedison í lok apríl, en þær hafa verið saman síðan síðastliðið sumar.

Frumsýningardagur vestrans Jane Got a Gun með þeim Natalie Portman og Ewan McGregor í aðalhlutverkum, hefur verið ákveðinn þann 20. febrúar 2015. Talsverð rekistefna hefur orðið út af gerð myndarinnar eftir að leikstjórinn Lynne Ramsey hætti
við gerð hennar á fyrsta tökudegi og labbaði út og leikstjórinn Gavin O’Connor (Tumbleweeds, Warrior) tók við. En nú er þetta sem sagt komið á hreint, segja menn.

Það er gríðarlega mikil trú á að myndin Godzilla, sem frumsýnd verður í 60 löndum samtímis þann 16. maí, verði stórsmellur, en bíóspekingar vestra spá því að hún eigi eftir að hala inn á milli 60 og 70 milljón dollara fyrstu sýningarhelgina í Bandaríkjunum og
tvöfalt meira en það í öðrum löndum.

godzilla

Það hefur komið í ljós að fréttir af sambandsslitum þeirra Jennifer Lawrence og Nicholas Hoult hafa verið stórlega ýktar. Þau eru enn saman, eða eru byrjuð aftur saman ef þau hafa þá einhvern tíma slitið sambandinu.

Justin Bieber þurfti að þola það við komu til Los Angeles frá Tokyo þann 24. apríl að vera tekinn í yfirheyrslu af embættismönnum á flugvellinum og haldið í fjóra tíma áður en
hann fékk að fara inn í landið. Talið er að með þessu séu yfirvöld að koma þeim skilaboðum til Justins að fremji hann fleiri lögbrot í Bandaríkjunum verði honum endanlega meinuð landvist.

Eftir 20 ár í hjónabandi hafa þau Cuba Gooding, Jr. og Sara Kapfer ákveðið að segja þetta gott og skilja. Þau byrjuðu saman í menntaskóla og gengu í hjónaband árið 1994. Þau eiga þrjú börn. Ástæða skilnaðarins er ósættanlegur ágreiningur.

Og talandi um slit þá tilkynntu fyrir skömmu þau Uma Thurman og unnusti hennar síðan árið 2007, Arpad Busson, að þau væru steinhætt saman, líka vegna ósættanlegs ágreinings.
Þau Ashton Kutcher og Mila Kunis eru hins vegar ekki hætt saman heldur þvert á móti, því nú er komið í ljós að þau eiga von á barni. Hermt er að það sé stúlka.

Og talandi um barneignir þá eignuðust þau Drew Barrymore og eiginmaður hennar, Will Kopelman, sína aðra dóttur þann 22. apríl. Stúlkunni hefur þegar verið gefið nafnið Frankie. Eldri systir hennar, Olivia, er nítján mánaða.

Þau Olivia Wilde og Jason Sudeikis voru líka að fjölga mannkyninu, en þau eignuðust son þann 24. apríl sem hefur verið gefið nafnið Otis Alexander. Fyrstu myndina sem tekin var af honum má finna á bls. 23 hér hinum megin í blaðinu.

Jon Favreau er nú með í bígerð mynd sem gera á eftir hinni þekktu sögu Rudyards Kipling, Jungle Book, eða Skógarlíf eins og hún heitir á íslensku. Leikarar eins og Idris Elba, Scarlett Johansson og Lupita Nyong’o hafa verið orðaðir við aðalhlutverkin.

jon favreau

Warner Bros hefur keypt kvikmyndaréttinn að bók svissneska rithöfundarins Joëls Dicke, The Truth About the Harry Quebert Affair, en hún hefur gjörsamlega slegið í gegn að undanförnu og verið þýdd á 22 tungumál. Hermt er að þegar sé búið að ráða Ron Howard til að stýra myndgerðinni, en sagan segir frá rithöfundi sem ákveður að komast til botns í dularfullu morðmáli.

Tom Cruise heldur sér uppteknum eins og venjulega en nýjasta mynd hans, Edge of Tomorrow, verður frumsýnd núna í maí. Næst á dagskrá hjá honum eru fjórar myndir og af þeim er hann þegar byrjaður ásamt sínu fólki á Mission Impossible 5. Því næst mun hann leika í nýrri Van Helsing-mynd, svo í Top Gun 2 og þar á eftir í Jack Reacher 2: Never Go Back.

Tökur á næstu Avengers-mynd, Age of Ultron, eru nú í fullum gangi og fara þær fram víða um lönd. Þeir sem vilja fá að fylgjast dálítið með hvernig gengur er bent á fylgja Robert Downey Jr. eftir á Twitter en hann er byrjaður að birta eigin myndir frá settinu sem hann er á. Skoðið málið: twitter.com/RobertDowneyJr.

Nýjasta mynd Richards Linklater, Boyhood, hefur verið að fá alveg svakalega góða dóma, bæði gagnrýnenda og áhorfenda, en hún var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni og hefur síðan verið að flakka á milli hátíða áður en hún fer í almenna dreifingu þann 11. júlí. Myndin er með 8,6 í einkunn á Imdb þar sem almennir áhorfendur halda vart vatni í umsögnum sínum um snilldina, og með 96 í skor á Metacritic þar sem t.d. gagnrýnendur The Hollywood Reporter, The Guardian og Time Out gefa henni 100 í einkunn. Á Rotten Tomatoes er hún svo með einkunnina 100% frá 19 gagnrýnendum og tæplega 500
almennum áhorfendum. Þetta hlýtur að vera góð mynd.

Þau Johnny Depp og Amber Heard sjá vart sólinina hvort fyrir öðru að því er kunnugir segja og varla hefur það skemmt fyrir að Johnny splæsti nýverið í risastóran demantshring handa henni sem hún er nú óhrædd við að skarta við hvert tækifæri. Þess má geta að Johnny er fimmtugur en Amber er 27 ára.

Bradley Cooper og unnusta hans, hin breska Suki Waterhouse, sáust spígspora á dögunum um París þar sem þau virtust una sér vel, en vegna anna beggja höfðu þau víst ekki getað hist um nokkurn tíma. Orðrómurinn segir að þau ætli að giftast.

Alicia Silverstone er nú að gefa út nýja bók, en fyrsta bók hennar, The Kind Diet, sem kom út árið 2011, seldist eins og heitar lummur.