Frumsýning: Gangster Squad

Sambíóin frumsýna hasarmyndina Gangster Squad á föstudaginn næsta, 25. janúar.

Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að hér sé á ferðinni grjóthörð hasarmynd í anda The Untouchables. „Myndin byggir á sannsögulegum atburðum þegar glæpaforinginn Mickey Cohen (Sean Penn) hyggst ná yfirráðum yfir L.A. en til þess beitir hann vægast sagt ofbeldisfullum aðferðum. Yfirmaður lögreglunnar(Nick Nolte) sér í hvað stefnir og setur saman aftökusveit sem á að svara glæpaforingjanum í sömu mynt.“

Sjáðu stikluna úr myndinni hér að neðan:

Gangster Squad fjallar um baráttu lögregluyfirvalda í Los Angeles við glæpakónginn Mickey Cohen og menn hans á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar.

Það eru þau Sean Penn, Ryan Gosling, Emma Stone, Josh Brolin, Michael Peña, Giovanni Ribisi og Nick Nolte sem fara með aðalhlutverkin í þessari þriðju mynd Rubens Fleischer sem leikstjóra en hann hefur áður gert myndirnar Zombieland og 30 Minutes or Less.

Myndin hefst árið 1949 í Los Angeles. Glæpamaðurinn Mickey Cohen hefur ásamt mönnum sínum komist til mikilla áhrifa í undirheimum borgarinnar og sölsað undir sig stóran hluta af ólöglegum viðskiptum tengdum eiturlyfjum, vændi, vopnasölu og veðmálastarfsemi. Áhrifa þessa miskunnarlausa glæpaforingja gætir víða og teygja völd hans anga sína m.a. inn í raðir lögreglu og embættismanna borgarinnar.

Eftir að ljóst er orðið að lögin ein geta ekki stöðvað Mickey og sívaxandi umsvif hans, ákveða yfirvöld að heimila með leynd stofnun lítillar sérsveitar sem er ætlað það hlutverk að berjast við Mickey og menn hans með þeirra eigin aðferð, ofbeldi.

Í þeirri baráttu eru allar reglur og lagabókstafir látnir lönd og leið og um leið öll miskunn…

Aðalhlutverk: Sean Penn, Ryan Gosling, Emma Stone, Josh Brolin, Michael Peña, Giovanni Ribisi og Nick Nolte.

Leikstjórn: Ruben Fleischer

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri, Bíóhöllin Akranesi, Króksbíó Sauðárkróki og Ísafjarðarbíó

Aldurstakmark: 16 ára

Fróðleiksmolar til gamans: 

• Fyrir áhugasama er gaman að kynna sér stórmerkilega sögu Mickeys Cohen sem má auðveldlega finna á netinu, en Mickey, sem hóf glæpaferil sinn barnungur, starfaði m.a. með Al Capone í Chicago og Benjamin „Bugsy“ Siegel í Las Vegas áður en hann haslaði sér völl í Los Angeles.